Rodrygo orðaður við Arsenal - Wirtz velur milli Bayern og Liverpool - Barcelona vill Díaz
banner
   fim 22. maí 2025 23:30
Ívan Guðjón Baldursson
Garnacho má fara fyrir rétta upphæð
Garnacho fagnar marki með Kobbie Mainoo.
Garnacho fagnar marki með Kobbie Mainoo.
Mynd: EPA
Rúben Amorim verður líklegast áfram við stjórnvölinn hjá Manchester United í sumar. Hann mun hafa sitt að segja þegar kemur að leikmannamálum liðsins en ljóst þykir að Rauðu djöflarnir þurfa að styrkja sig fyrir næstu leiktíð.

Það gæti þó reynst erfitt að kaupa inn gæðaleikmenn eftir að liðið missti af Evrópusæti á tímabilinu. Man Utd gekk hörmulega í ensku úrvalsdeildinni en fékk tækifæri til að tryggja sér þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu með því að komast alla leið í úrslitaleik Evrópudeildarinnar, þar sem lærisveinar Amorim töpuðu gegn Tottenham Hotspur í gærkvöldi.

Matheus Cunha verður líklegast fyrsti leikmaðurinn sem kemur til félagsins í sumar þar sem hann er spenntur fyrir að spila undir stjórn Amorim. Rauðu djöflarnir eru sagðir vera reiðubúnir til að borga riftunarákvæðið í samningi Cunha við Wolves sem nemur 62,5 milljónum punda.

Kantmaðurinn Alejandro Garnacho gæti þá verið á förum frá félaginu. Hann var dapur eftir úrslitaleikinn í gærkvöldi og sagði í viðtali að leikslokum að hann skildi ekki hvers vegna hann fékk bara að spila síðustu 20 mínúturnar í leiknum, eftir að hafa byrjað alla leiki liðsins fram að því í keppninni.

Fótboltafréttamaðurinn Fabrizio Romano greinir frá því að Man Utd sé tilbúið til að selja Garnacho í sumar, en einungis fyrir rétt verð. Félagið metur hann á um 60 til 80 milljónir punda.

Garnacho er argentínskur landsliðsmaður með 8 A-landsleiki að baki. Hann verður 21 árs í byrjun júlí og þykir mjög efnilegur. Hann hefur komið að 21 marki í 58 leikjum með Man Utd á tímabilinu en hefur einnig átt mikið af afar döprum leikjum.
Athugasemdir
banner
banner