Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mið 23. júní 2021 18:20
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Björn Daníel í byrjunarliði FH í bikarnum
Björn Daníel Sverrisson.
Björn Daníel Sverrisson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Miðjumaðurinn Björn Daníel Sverrisson kemur inn í byrjunarlið FH sem mætir Njarðvík í Mjólkurbikarnum í kvöld.

Það hefur verið nokkuð rætt og ritað um Björn Daníel í vikunni eftir 4-0 tap FH gegn Breiðablik á sunnudag.

Björn Daníel átti að koma inn sem varamaður í stöðunni 4-0 fyrir Breiðablik en vildi ekki koma inn. Davíð Þór Viðarsson, aðstoðarþjálfari FH, reiddist og skipaði Birni að setjast á bekkinn.

Björn, sem er 31 árs miðjumaður og var fyrirliði FH í fyrra, hefur komið inn á sem varamaður í sex leikjum FH, öllum nema einum þar til á sunnudag. Þá var hann ónotaður varamaður.

Það kom fram fyrr í dag hjá Mannlíf að samningi leikmannsins yrði mögulega rift en aðstoðarþjálfari FH blés á þær sögur í samtali við 433.is. Davíð sagði jafnframt að Björn hefði ekki neitað því að fara inn á völlinn.

FH hefur gengið illa á þessu tímabili og var Logi Ólafsson látinn taka pokann sinn eftir tapleikinn gegn Blikum. Ólafur Jóhannesson var ráðinn í hans stað út tímabilið og stýrir sínum fyrsta leik í kvöld, bikarleik gegn Njarðvík. Björn Daníel byrjar í fyrsta leik Ólafs með liðið.

Hægt er að nálgast textalýsingu frá leik FH og Njarðvík með því að smella hérna.
Athugasemdir
banner