Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fös 23. september 2022 14:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Horft oft á atvikið sem endaði ferilinn - „Fékk nístandi heilakuls hausverk í augun"
Davíð Þór Ásbjörnsson
Davíð Þór Ásbjörnsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Davíð Þór Ásbjörnsson þurfti að leggja skóna á hilluna á síðasta ári eftir að hafa í fimmta skiptið á ferlinum fengið heilahristing. Sá fimmti kom í leik með Kórdrengjum gegn ÍBV.

„Þetta er svolítið skrítið, með þessi höfuðhögg og sérstaklega rot, þá man maður ekkert 10-20 mínútum áður en þetta gerist. Þannig ég man voða lítið eftir þessum leik. Ég man að þetta var risaleikur í baráttunni um að komast upp en af leiknum sjálfum man ég ekkert. Ég hef horft á þetta atriði aftur og aftur. Gæðin á upptökunni eru ekki góð en það sést samt að markvörðurinn kýlir í gegnum andlitið á mér áður en hann fer í boltann," sagði Davíð við Fótbolta.net í vikunni.

„Þetta var held ég eini leikurinn sem konan og stelpan mín komust á þetta sumarið. Þau þurftu að sjá þetta. Þetta var pínu sjokk, ekkert í fyrsta skiptið sem þetta gerist, er búinn að rotast þrisvar sinnum og hef aukalega fengið tvo heilahristinga. Hún hefur séð þetta áður."

„Fyrstu fjórir, fyrir þennan, var ég bara góður daginn eftir. Þessi heilahristingur var frábrugðin þeim að tveimur vikum eftir þetta var ég í rugli hvað það varðar að ég var að reyna vinna við tölvuna en gat bara séð 1-2 tíma þangað til ég fékk svona nístandi heilakuls hausverk í augun og var í raun liggjandi það sem eftir lifði dags. Ég gat ekki horft á sjónvarp því þá kom hann bara aftur. Sem betur fer dvínaði þetta út eftir þessar tvær vikur, svo var ég bara goður og finn ekkert í dag."

„Ég er forritari, hef jafngaman af forritun og fótbolta. Á tímabili var ég hræddur um að hafa misst það líka. Það sem kom mér á óvart var að enginn læknir minntist orði á heilahristinginn. Ég kinnbeinsbrotnaði í leiðinni og það var aðalatriðið gagnvart læknunum."


Hann spilaði fótbolta í Bandaríkjunum á sínum tíma og þar er hart tekið á höfuðhöggum. Þekking þaðan hjálpaði honum í þessu ferli.

„Hægt og bítandi byrjar það að síast inn að ferillinn gæti verið búinn, og það er alveg þvílíkt sjokk á meðan því stendur. 24 ár þar sem ég var búinn að helga líf mitt fótboltanum. En það er tvennt í þessu sem gerði það bærilegra. Fyrst er það forritunin og fjölskyldan. Fótbolti er fáránlega tímafrekur og ég fæ þá tímann í það sem er geggjað. Atriði tvö er að ég ætlaði að hætta í fótbolta 2019, þegar ég hætti í Fylki. Ég fékk þessi þrjú ár í bónus," sagði Davíð.

Viðtalið við Davíð má nálgast hér að neðan en þar ræðir Davíð meira um höggið, tímann hjá Kórdrengjum og ýmislegt annað.
Davíð Þór Ásbjörnsson - Fimmti heilahristingurinn fyllti mælinn
Athugasemdir
banner
banner