Það fékk enginn Gullknöttinn í fyrra vegna Covid-19 en í ár verða verðlaunin veitt á ný. Lionel Messi og Cristiano Ronaldo hafa einokað Gullknöttinn síðasta áratuginn að undanskildu árinu 2018 þegar Luka Modric var kjörinn bestur.
Í fyrra benti allt til þess að pólski sóknarmaðurinn Robert Lewandowski yrði valinn bestur eftir að hafa skorað 32 mörk í 26 deildarleikjum og 55 mörk í 47 leikjum yfir keppnisárið.
Bayern vann þrennuna þökk sé mörkum Lewandowski en hann fékk engan Gullknött. Hann hélt því uppteknum hætti á síðustu leiktíð og skoraði 41 mark í 34 deildarleikjum og bætti þannig eldgamalt markamet Gerd Müller.
„Ef ég ætti að velja þá yrði Lewandowski fyrir valinu. Hann hefur verið ótrúlegur síðustu tvö ár og unnið mikið með Bayern. Ég myndi velja hann," segir Kevin De Bruyne sem hefur verið einn mikilvægasti hlekkurinn hjá Manchester City og belgíska landsliðinu undanfarin ár.
Julian Nagelsmann, þjálfari FC Bayern, tekur í svipaða strengi og segir sóknarmann sinn eiga nafnbótina skilið.
„Robert á skilið að vinna Gullknöttinn, hann hefur verið bestur í heimi undanfarin þrjú ár og getur haldið áfram," sagði Nagelsmann.
„Ef hann heldur þessu íkamsástandi þá á hann mikið eftir af ferlinum. Hann meiðist aldrei og leggur allt í sölurnar á æfingum. Ég trúi að hann geti spilað í þessum gæðaflokki í nokkur ár til viðbótar."
Athugasemdir