mán 23. nóvember 2020 16:30
Magnús Már Einarsson
Freysi: Tækifæri til að kynnast allt öðrum fótbolta
Freyr Alexandersson.
Freyr Alexandersson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Freyr Alexandersson mun á næstunni ganga frá samningi við Al Arabi í Katar um að taka við sem aðstoðarþjálfari liðsins. Freyr stefnir á að gera samnig út tímabilið með möguleika á framlengingu um eitt ár.

Freyr hefur undanfarin ár starfað hjá KSÍ, fyrst sem þjálfari kvennalandsliðsns og síðan sem aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins. Voru önnur lið í myndinni núna? „Það hefur ekki verið neitt síðustu mánuði. Fyrr á árinu var ég í viðræðum annarsstaðar og var að skoða það en það hefur ekkert verið upp á síðkastið," sagði Freyr við Fótbolta.net í dag.

Heimir Hallgrímsson tók við hjá Al Arabi fyrir tæpum tveimur árum síðan en Freyr verður aðstoðarþjálfari með honum.

„Við Heimir höfum verið í sambandi frá því að hann kom hingað. Þetta var spurning hvort ég hefði áhuga og hvort hann gæti boðið mér starf einhverntímann. Núna hitti þetta þannig á að honum vantar að fá mann eins og mig inn. Mann sem hann þekkir og getur hjálpað honum. Ég þekki hann út og inn og vinnubrögðin hans og þsð er auðvelt að aðlagast hlutum," sagði Freyr.

„Á sama tíma var ég kominn á þann stað með samningamálin mín hjá Knattspyrnusambandinu að mig vantaði vinnu. Tímaramminn small nokkurnveginn saman. Síðan kom upp að við gætum verið að fara á EM og þá samþykktu Heimir og Al Arabi að ég gæti gert hvorugt tveggja. Þá þurfti ég bara að ná samningum við Knattspyrnusambandið. Það var ekkert auðvelt en þau samþykktu þetta ef þetta hefði farið svo."

„Núna er breytt staða. Við erum út úr keppninni og ég er í Katar núna að klára mín mál. Ég var ekki búinn að klára mín mál þó að ég hefði verið þarna úti á milli gluggana í október og nóvember. Ég beið eftir að við myndum klára þetta nóvember verkefni. Ég er á síðustu stigum í samningaviðræðum hér en en er byrjaður að vinna dags daglega með þeim."


Freyr er spenntur fyrir því að starfa í Katar en Al Arabi er með eina glæsilegust æfingaaðstöðu í heimi í Aspire akademíunni.

„Ég er aðstoðarþjálfari með Heimi og geri allt sem því fylgir. VIð erum með flott teymi í kringum okkur. Bjarki (Már Ólafsson) sér um alla greiningarvinnu og er líka á æfingasvæðinu. Hann er búinn að bæta sig rosalega og það er magnað að sjá hann. Það ýtir við manni. Ef ég get bætt mig svona eins og hann, þó það væri ekki helmingur, þá væri ég ánægður með niðurstöðuna að koma hingað. Umhverfið er frábært. Vellirnir eru góðir og æfingaaðstaðan. Fagfólkið sem er að vinna hérna og í Aspire þar sem við erum með skrifstofur er mjög spennandi."

„Þetta er líka tækifæri til að kynnast öðrum menningarheim og allt öðrum fótbolta en ég hef verið í. Það er mikill munur. Handbragð Heimis Hallgrímssonar er augljóst, hans lið er allt öðruvísi en önnur lið í deildinni. Hans hugmyndafræði er allt öðruvísi en fótboltinn hér. Hann hefur náð stórkostlegum tökum á þessu félagi og hefur gjörbreytt því."


Sjá einnig:
Freysi um landsliðið: Erfitt að segja að maður hafi ekki áhuga
Athugasemdir
banner
banner