Matheus Cunha, leikmaður Wolves, er að færast nær því að ganga í raðir Manchester United og gæti verið stutt í samkomulag ef marka má orð Fabrizio Romano.
Brasilíumaðurinn er á förum frá Wolves eftir frábært tímabil en án hans hefði liðið líklega fallið niður um deild.
Cunha gat farið frá félaginu í janúarglugganum en fannst það siðferðislega rangt að yfirgefa það í fallbaráttunni og ákvað í staðinn að framlengja.
Í síðasta mánuði, þegar Wolves var svo gott sem búið að tryggja áframhaldandi veru sína í deildinni, sagði hann í viðtali að hann væri nú klár í að taka næsta skref ferilsins og má gera ráð fyrir að það gerist í sumar.
Fabrizio Romano segir að Man Utd sé að leiða baráttuna um Cunha og að félagið haldi áfram í viðræðum við hann á næstu dögum. Einnig segir hann að það gæti verið stutt í að hann hendi í frasann fræga „Here we go!“ til að fullyrða að Cunha sé að ganga í raðir United.
Cunha, sem er 25 ára gamall, er með 53 milljóna punda kaupákvæði í samningnum sem United ætlar sér að virkja, en það verður sterk viðbót við hópinn.
Athugasemdir