Þeir Aron Elís Þrándarson, Matthias Vilhjálmsson, Stígur Diljan Þórðarson, Gunnar Vatnhamar og Daði Berg Jónsson fóru ekki með Albaníu en þar eru Víkingar að undirbúa sig fyrir leik gegn Vllaznia í 2. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni. Fyrri leikur liðanna fer fram í Shkoder klukkan 18:30 í dag.
„Það má búast við því að Gunnar verði frá í 3-5 vikur, hann fékk verk á gamla staðinn í hnénu. Fljótt á litið verða þetta 3-5 vikur, en þetta er Gunnar Vatnhamar, maður veit aldrei með hann, grjótharður. Maður þarf yfirleitt að halda aftur af honum," segir Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings, við Fótbolta.net.
„Daði Berg varð eftir heima, er ennþá að glíma við meiðsli sem hann kom með frá Ísafirði."
Voruð þið eitthvað ósáttir að hann hafi verið að spila tæpur með Vestra?
„Nei, í raun og veru ekki. Daði þarf líka að sjá um þetta sjálfur, hann væntanlega lætur vita ef hann er klár eða ekki klár. Við getum ekkert verið að skipta okkur alltof mikið af því, hann taldi sig geta spilað 60 mínútur. Meiðslin hans eru ekki alvarleg. Hann ætti að geta verið klár þegar við komum til baka frá Albaníu," segir Sölvi Geir.
Athugasemdir