Klukkan 18:30 að íslenskum tíma mætir Víkingur liði Vllaznia í 2. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni. Fyrri leikurinn í einvíginu fer fram í Shkoder í Albaníu í dag.
Fótbolti.net ræddi við Sölva Geir Ottesen, þjálfara Víkings, fyrir æfingu liðsins í gærkvöldi.
Fótbolti.net ræddi við Sölva Geir Ottesen, þjálfara Víkings, fyrir æfingu liðsins í gærkvöldi.
„Ferðalagið var ágætt, flestallir flugu á mánudaginn, stoppað í Róm, flogið yfir til Svartfjallalands og tekin stutt rútuferð yfir til Albaníu, ég hef séð það svartara," segir Sölvi Geir.
„Þetta lið lenti í 2. sæti deildarinnar í fyrra, tveimur stigum á eftir Egnatia (sem Breiðablik sló út í forkeppni Meistaradeildarinnar). Þeir eru búnir að skipta um þjálfara og mér finnst eins og leikstíllinn hafi aðeins breyst. Þeir voru ekki mikið með boltann, tölfræðin gaf manni það að þeir hafi ekki verið mikið í pressu, en í þeim leikjum sem ég hef séð þá hafa þeir meira stigið upp og pressað andstæðinginn. Þeir spila með vængbakverði og tvo stóra og stæðilega framherja. Þetta lið lítur vel út og það má búast við hörkuviðureign á móti þeim."
„Við æfum seint (í gærkvöldi) og það er aðeins kaldara á þeim tíma heldur en yfir daginn, sem er mjög jákvætt, því það er mjög heitt hérna úti. Það fór mest upp í 40 stiga hita."
„Þetta verður erfiður andstæðingur, það eru góðir einstaklingar í liðinu. Við erum spenntir að fara mæta þeim og bera okkur saman við þá," segir þjálfarinn.
Valur sló út Vllaznia í 1. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni í fyrra. Fyrri leikurinn fór 2-2 á Hlíðarenda og Valur vann leikinn í Albaníu 4-0.
Fyrir fram, sérðu fyrir þér sitthvora sviðsmyndina úti í Albaníu og heima á Víkingsvelli, telur þú að það sé mikill munur á þeim heima og úti?
„Það er alltaf munur að spila erlendis, það eru flug og öðruvísi vallaraðstæður og svoleiðis. Það er venjulegt gras á vellinum hérna úti sem við erum ekki vanir. Leikmyndin gæti orðið öðruvísi, en við stefnum samt á að ná stjórn á leiknum og spila okkar leik á grasinu. Við erum vanari aðstæðunum heima, það gæti spilað inn í, en við ætlum að reyna spila okkar leik."
„Við þurfum að sinna grundvallaratriðunum, ég er búinn að vera mjög sáttur með það í síðustu leikjum. Við gerum þetta saman, allir að berjast fyrir hvorn annan og erum vel skipulagðir í okkar pressu. Við þurfum aðeins að skerpa á tæknilegum hlutum, erum oft að komast í góðar stöður þar sem hægt er að taka aðeins betri ákvarðanir. Mér finnst hafa verið góður stígandi í okkar leik. Við þurfum að halda áfram að vera jákvæðir. Þrátt fyrir leiðinleg úrslit í síðasta leik (gegn Val), þá erum við bara jákvæðir með hvernig okkur er búið að ganga og hvernig leikurinn okkar er að þróast, finnst það vera í rétta átt," segir Sölvi Geir.
Athugasemdir