lau 24. ágúst 2019 22:23
Ívan Guðjón Baldursson
Solskjær: Áttum skilið að vinna í dag og gegn Wolves
Mynd: Getty Images
Ole Gunnar Solskjær var svekktur eftir tap Manchester United á heimavelli gegn Crystal Palace í dag.

Marcus Rashford klúðraði vítaspyrnu í stöðunni 0-1 og er það sérstaklega svekkjandi eftir að Paul Pogba brenndi af í 1-1 jafntefli gegn Wolves um síðustu helgi.

„Tveir leikir, tvö klúðruð víti. Báðir leikirnir hefðu þróast öðruvísi með marki á þessum tímapunkti," sagði Solskjær eftir tapið.

„Við nýttum færin okkar ekki nógu vel á meðan þeir skoruðu tvö auðveld mörk. Við sköpuðum okkur nóg til að vinna leikinn, færanýtingin var ekki góð og við vörðumst ekki nógu vel.

„Við vorum með mikla yfirburði en náðum aldrei stjórn á leiknum. Við áttum sérstaklega að gera betur síðustu fimm mínútur leiksins."


Man Utd er því með fjögur stig eftir þrjár umferðir og er næsti leikur á móti Southampton á St. Mary's leikvanginum.

„Þetta eru vonbrigði því við áttum skilið að vinna bæði í dag og gegn Wolves. Því miður fær maður ekki alltaf það sem maður á skilið í fótbolta, eina sem við getum gert er að mæta grimmir til Southampton, spila betur og vinna leikinn.

„Fyrra markið sem við fengum á okkur í kvöld var skelfilegt og ætti aldrei að gerast. Þetta var bara langur bolti fram sem vörnin réði ekki við. Í seinni hálfleik vorum við hins vegar frábærir og gerðum allt rétt - allt nema að nýta færin."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner