Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 24. september 2021 10:07
Elvar Geir Magnússon
Kaj Leo fær ekki nýjan samning hjá Val - Vill spila áfram á Íslandi
Kaj Leo í Bartalsstovu yfirgefur Valsmenn.
Kaj Leo í Bartalsstovu yfirgefur Valsmenn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kaj Leo í Bartalsstovu er að verða samningslaus hjá Val og er á leið frá félaginu. Umboðsmaður hans, Hans Jacob á Líknargøtu, staðfestir að færeyski landsliðsmaðurinn fái ekki nýjan samning hjá Valsmönnum.

„Valur hefur verið í erfiðleikum að undanförnu og af einhverjum furðulegum ástæðum hefur Kaj Leo ekki verið valinn til að hjálpa liðinu. Það þrátt fyrir að liðið á augljóslega í vandræðum með sköpunarmátt og markaskorun," segir Hans Jacob.

Hann segir að fyrst Valsmenn hafi ekki áhuga á að hafa Kaj Leo áfram sé næsta skref leikmannsins að finna félag sem hefur trú á honum og hans hæfileikum innan og utan vallar.

„Hann og fjölskylda hans hafa fest niður rótum á Íslandi og hafa áhuga á því að vera hér áfram," segir umboðsmaðurinn Hans Jacob.

Kaj Leo í Bartalsstovu er 30 ára gamall og hefur spilað 27 landsleiki fyrir Færeyjar. Hann var í liði FH sem varð Íslandsmeistari 2016 og varð Íslandsmeistari með Val í fyrra. Þá hjálpaði hann ÍBV að verða bikarmeistari 2017.

Hann hefur verið ónotaður varamaður í síðustu leikjum Vals en hefur alls komið við sögu í fjórtán leikjum í Pepsi Max-deildinni á þessu tímabili.

Valur mætir Fylki í lokaumferð Pepsi Max-deildarinnar á morgun.
Athugasemdir
banner
banner