„Við áttum klárlega séns á að jafna en ég hef sagt það í allt sumar að þú færð bara það sem þú átt skilið út úr leikjunum þínum. Í ljósi þess að við náðum ekki að brjóta þá hérna í seinni hálfleik þá áttu þeir bara sigurinn skilið.“ Voru orð svekkts þjálfara HK Ómars Inga Guðmundssonar eftir 2-1 tap HK gegn Keflavík þegar hann var spurður hvort HK hefði átt skilið að jafna leikinn.
Lestu um leikinn: Keflavík 2 - 1 HK
Byrjun leiksins var fjörleg í meira lagi, snemma leik fékk Örvar Eggertsson dauðafæri einn gegn markmanni en lét verja frá sér. Aðeins örfáum sekúndum síðar var boltinn mættur í vítateig HK og vítaspyrna dæmd þegar brotið var á Nacho Heras. Þungt högg að fá á sig.
„Við brugðumst frábærlega við fórum beint upp og jöfnuðum og áttum nokkra ágætis spilkafla inn á milli í fyrri hálfleik. En heilt yfir var fyrri hálfeikur ekki nógu góður og því fór sem fór.“
Umdeilt atvik átti sér stað í síðari hálfleik þegar brotið var á Örvari Eggertssyni sem var að sleppa í gegn, Boltinn barst frá honum á varamanninn Tuma Þorvarsson sem var kominn einn gegn Mathias Rosenörn þegar Arnar Þór Stefánsson dómari leiksins ákvað að flauta og stöðva leikinn og dæma aukaspyrnu. Hvernig horfði það atvik við Ómari?
„Bara nákvæmlega eins og öllum öðrum held ég og ég bara ætla ekki að segja neitt meira en það.“
Sagði Ómar en allt viðtalið við hann má sjá hér að ofan
Athugasemdir