
Cristiano Ronaldo braut ísinn í fjörugum 3-2 sigri Portúgal gegn Gana í fyrstu umferð heimsmeistaramótsins. Ronaldo fiskaði vítaspyrnu og skoraði af miklu öryggi af vítapunktinum.
Ronaldo varð með markinu fyrsti leikmaður sögunnar til að skora í fimm mismunandi heimsmeistaramótum og var hann himinlifandi að leikslokum.
„Ég er mjög stoltur að hafa skorað í fimm mótum í röð, þetta er falleg stund fyrir mig. Þetta er mjög mikilvægur sigur fyrir okkur eftir erfiðan leik," sagði Ronaldo eftir lokaflautið og var svo spurður út í Manchester United.
„Sá kafli er búinn. Núna erum við á HM og það er ekkert annað sem skiptir máli. Við mættum í dag og náðum í sigur. Það er fyrir öllu."
Athugasemdir