fim 25. febrúar 2021 10:30
Elvar Geir Magnússon
Segir að dómarar séu að eyðileggja fótboltann - „Að verða íþrótt án snertinga"
Gian Piero Gasperini.
Gian Piero Gasperini.
Mynd: Getty Images
Gian Piero Gasperini hraunaði yfir dómgæslu í fótbolta almennt eftir að Atalanta tapaði 0-1 fyrir Real Madrid í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Gasperini er þjálfari ítalska liðsins og það sauð á honum eftir leikinn í gær. Remo Freuler, leikmaður Atalanta, fékk rautt spjald eftir sautján mínútur en þýsku dómararnir töldu hann hafa rænt upplögðu marktækifæri.

Sjá einnig:
Dómarinn dæmdi dýfu en ekkert gult spjald

„Þessi leikur var hreinlega eyðilagður. Á síðasta tímabili var allt í rugli út af reglunni um hvenær eigi að dæma hendi eða ekki. Það komst til betri vegar. Nú eru dómarar að reyna að fjarlægja allar snertingar úr íþróttinni, það mun drepa hana," segir Gasperini.

„Ef ég segi eitthvað mun UEFA örugglega banna mig í mánuð. En fótboltinn er að fremja sjálfsmorð. Við getum ekki haft dómara sem spiluðu ekki leikinn og þekkja ekki muninn á tilraun og broti."

„Ef þeir geta ekki greint muninn á milli eiga þeir að fara í annað starf. Það þarf þá að fá fólk sem hefur spilað fótbolta í þeirra stað. Nú eru dómararnir líka með myndbandstæknina en þrátt fyrir að skoða atvikin aftur þá taka þeir rangar ákvarðanir."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner