Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 25. febrúar 2021 10:45
Magnús Már Einarsson
Tryggvi Guðmunds: Kennir manni að maður á aldrei að segja aldrei
Tryggvi Guðmundsson
Tryggvi Guðmundsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tryggvi Guðmundsson, markahæsti leikmaður efstu deildar frá upphafi, var í gær ráðinn þjálfari hjá Kormák/Hvöt í 4. deildinni. Tryggvi var í viðtali við Huga Halldórsson og Gunnar Sigurðarson Fantasy Gandalf í síðustu viku þar sem hann lýsti yfir áhuga á að fara að þjálfa aftur en hann þjálfaði síðast Vængi Júpíters í 3. deildinni árið 2019.

„Ég fór í Podcast spjall hjá Huga og Gunna og ég ætla það að út frá því hafi þeir í Kormáki/Hvöt haft samband við mig. Ég sagðist ekki vera að sækja um stöður en sagðist vera opin ef eitthvað spennandi kemur upp," sagði Tryggvi við Fótbolta.net í dag.

„Ég sagði reyndar í þessu hlaðvarpi að ég myndi ekki fara út á land en þetta kannski kennir manni að maður á aldrei að segja aldrei. Mér fannst þetta spennandi fyrir mig. Maður hefur saknað þess að vera í kringum boltann. Þó að maður sé að horfa á og fylgjast með þá er öðruvísi að vera þátttakandi."

Skemmtilegt tækifæri að upplifa gott sumar fyrir norðan
Kormákur er frá Hvammstanga og Hvöt frá Blönduósi en Tryggvi mun flytja norður í vor til að stýra liðinu.

„Ég mun taka skemmtilegan vinkil á þetta. Ég mun fara þarna 1. maí og vera út ágúst. Þetta eru fjórir mánuðir sem ég mun vera fyrir norðan. Það er skemmtilegt tækifæri fyrir Vestmannaeyinginn að upplifa gott sumar fyrir norðan. Þeir fyrir norðan segja alltaf að besta veðrið sé þar og það verður gaman að fá að finna það af eigin skinni."

„Fram að því er Lengjubikarinn og flest allir leikirnir þar fara fram í Reykjavík. Ég fæ aðstoðarmenn fyrir norðan sem sjá um liðið og æfingar í vetur. Ég mun síðan taka við þeim. Ég fór fram á það að í fyrsta leik eftir tvær vikur muni ég heilsa upp á mannskapinn, kynna mig og vera eiginlega áhorfandi. Þar mun ég sjá hvað menn hafa fram að færa. Síðan mun ég taka við út frá því."


Stefnan sett upp í 3. deild
Kormákur/Hvöt hefur tvö ár í röð farið í undanúrslit í úrslitakeppninni í 4. deild og stefnan næsta sumar er að klára dæmið og fara upp í 3. deildina.

„Þeir hafa farið í úrslitakeppnina og verið nálægt þessu undanfarin ár. Mér heyrist á þeim að það sé metnaður fyrir því að fara upp. Metnaður er eitthvað sem ég elska. Ég er klár í að taka þennan slag með þeim," sagði Tryggvi en Kormákur/Hvöt hefur meðal annars fengið liðsstyrk frá Spáni undanfarin ár.

„Það hafa verið erlendir leikmenn þarna undanfarin ár og ég vona að það verði áfram. Þetta er lítið samfélag svo það þarf að bæta við með erlendum mönnum. Þeir þurfa að sjálfsögðu að geta eitthvað til að fá að taka þátt," sagði Tryggvi að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner