City vill Wirtz - Lookman orðaður við Newcastle og Man Utd - White gæti snúið aftur í landsliðið
   þri 25. febrúar 2025 16:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Fyrsta skrefið í átt að atvinnumennsku tekið á Akranesi
Jón Breki fagnar hér marki með U17 landsliðinu á síðasta ári.
Jón Breki fagnar hér marki með U17 landsliðinu á síðasta ári.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍA endaði í 5. sæti Bestu deildarinnar í fyrra. Skagamenn hafa verið meira í því að tilkynna komu efnilegra leikmanna í vetur en komu nýrra leikmanna í meistaraflokkinn.
ÍA endaði í 5. sæti Bestu deildarinnar í fyrra. Skagamenn hafa verið meira í því að tilkynna komu efnilegra leikmanna í vetur en komu nýrra leikmanna í meistaraflokkinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Við erum hér á Akranesi sjálf með hrikalega sterka yngri flokka og hugmyndin er að reyna sjá hver þörfin er á komandi árum, síðan metum við tækifæri á því að bæta í starfið okkar með ungum og efnilegum leikmönnum, drengjum og stúlkum, annars staðar frá.'
'Við erum hér á Akranesi sjálf með hrikalega sterka yngri flokka og hugmyndin er að reyna sjá hver þörfin er á komandi árum, síðan metum við tækifæri á því að bæta í starfið okkar með ungum og efnilegum leikmönnum, drengjum og stúlkum, annars staðar frá.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Brynjar Óðinn Atlason kom frá Hamri.
Brynjar Óðinn Atlason kom frá Hamri.
Mynd: ÍA
Jón Viktor Hauksson kom frá Haukum.
Jón Viktor Hauksson kom frá Haukum.
Mynd: ÍA
Jón Breki steig sín fyrstu skref með meistaraflokki KFA. Daníel Michal Grzegorzsson kom sömuleiðis frá KFA í vetur.
Jón Breki steig sín fyrstu skref með meistaraflokki KFA. Daníel Michal Grzegorzsson kom sömuleiðis frá KFA í vetur.
Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson
Ingimar Elí Hlynsson.
Ingimar Elí Hlynsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skagamenn hafa síðasta árið verið duglegir að fá til sín unga og efnilega leikmenn. Það er svo sem ekki í fyrsta sinn sem ÍA fær til sín efnilega leikmenn en frá og með síðasta sumri hafa nokkrir leikmenn sem hafa verið í unglingalandsliðshópum gengið í raðir félagsins.

Um er að ræð drengi á aldrinum 2008-2010. Einn af þeim, Jón Breki Guðmundsson, er þegar búinn að taka skrefið frá ÍA og til Ítalíu þar sem hann er á láni hjá Empoli sem er með forkaupsrétt á honum.

Fótbolti.net ræddi við framkvæmdastjóra ÍA, Ingimar Elí Hlynsson, um þessa stefnu félagsins.

„Við erum að skanna markaðinn og fylgjumst með þegar efnilegir leikmenn hjá öðrum félögum eru að standa sig vel. Við erum með ákveðinn aldurshóp í huga, erum í þéttu samstarfi við skólana hérna á Akranesi, báða grunnskólana og fjölbraut (FVA). Við erum alltaf að skoða ákveðinn aldurshóp og sjá hvort það séu forsendur fyrir því að styrkja okkur þar, á þessu millibili áður en menn taka skrefið upp í meistaraflokk."

„Við erum hér á Akranesi sjálf með hrikalega sterka yngri flokka og hugmyndin er að reyna sjá hver þörfin er á komandi árum, síðan metum við tækifæri á því að bæta í starfið okkar með ungum og efnilegum leikmönnum, drengjum og stúlkum, annars staðar frá."

„Það má samt ekki gleymast að þetta er bara frábær viðbót við það sem við höfum hér á Akranesi fyrir. Þetta eru kannski 2-3 drengir eða stúlkur sem við erum að bæta við yngri flokkana. Fyrir erum við með aragrúa af flottum leikmönnum í yngri flokka starfinu. Við gerum þeim leikmönnum jafnhátt til höfuðs og þeim leikmönnum sem eru að koma til okkar annars staðar frá."


Góð tenging milli þjálfaranna hjá félaginu
Hvernig finnið þið leikmennina?

„Þetta er mjög langt ferli. Leikmennirnir sem við höfum sótt núna í vetur, samstarfið milli þjálfarana í yngri flokkunum og upp í þjálfarateymi meistaraflokks er mjög öflugt. Fyrstu ábendingarnar koma oft frá þjálfurunum okkar, þeir taka eftir leikmönnum í leikjum í yngri flokkum. Þetta er þannig að einhver einstaklingur hrífur einhvern hjá okkur og svo fer boltinn af stað," segir Ingimar.

Eruð þið með einhvern yfirnjósnara sem fer svo og kíkir á leikmenn?

„Þetta er meira samstarf margra aðila. Jón Þór og Skarpi, þjálfarar meistaraflokkanna, eru í góðu samstarfi við þjálfarana í yngri flokkunum. Við erum með mjög öflugt og gott þjálfarateymi, langflestir af þjálfurunum sem eru að þjálfa eldri flokkana eru í fullu starfi og eyða dögum saman hérna á skrifstofunni þar sem þessi vinna fer fram."

Fyrsta skrefið í átt að draumnum
ÍA hefur fengið leikmenn utan af landi. Það vakti athygli í síðustu viku þegar leikmaður fór frá Haukum á Akranes.

„Það sem við erum að bjóða upp á er ákveðið fyrsta skref í átt að atvinnumennsku. Þetta eru mjög öflugir leikmenn sem við erum að fá til okkar og hugur þessara leikmanna er í takt við þá stefnu sem ÍA vill standa fyrir. Við viljum koma yngri leikmönnum að hjá okkur, gefa þeim tækifæri og auka þannig möguleika þeirra á að taka næsta skref á þeirra ferli."

„Ef við tökum Jón Viktor sem dæmi, ótrúlega flottur leikmaður og mjög efnilegur, hans hugur stefnir í atvinnumennsku, hann kemur til okkar í sumar, fer inn á vistina hjá okkur og byrjar þar að standa á eigin fótum. Hann fer í afrekshóp hjá okkur, æfir tvisvar á dag, fær máltíðir í gegnum skólann og heimavistina. Þetta fyrsta skref í áttina að því sem hann langar að verða í framtíðinni er hann að taka 40 mínútum í burtu frá foreldrum sínum. Hann getur tekið út þetta sem allir munu á endanum ganga í gegnum, þessa heimþrá og að standa á eigin fótum. Hann gerir það á Akranesi en ekki á Spáni eða Ítalíu þar sem tekur fimm tíma að fljúga á milli."


Mjög öflugt samstarf við framhaldsskólann
Þetta samstarf milli framhaldsskólans og ÍA er ekki nýtt af nálinni. „Við erum með leikmenn í okkar leikmannahópi í dag sem komu á þessum forsendum fyrir löngu síðan. Jón Gísli Eyland kom til okkar í svipað módel á sínum tíma frá Sauðárkróki og það má lengi telja aftur í tímann."

„Þetta samstarf hefur verið að eflast og eflast og orðið meira úr því eftir að árin líða. Það er gaman að heyra athugasemdir frá fjölbrautaskólanum, þau eru mjög ánægð með þessa krakka sem þau eru að fá til sín; það er ekkert vesen á þessum krökkum. Það er öllum reglum fylgt, þetta er toppíþróttafólk sem hugsar vel um sig og eru miklar fyrirmyndir, ekki bara hérna í fótboltanum heldur líka bara í skólanum almennt."

„Skólinn aðstoðar okkur í að hlúa vel að þeim krökkum sem eru að koma til okkar og fara í skólann. Krakkarnir sækja um skólavist og pláss á vistinni, við erum þeim innan handar í því. Við reynum að passa upp á þeim líði vel og það sé vel hugsað um þau. Á Akranesi snýst ansi mikið um fótbolta og ofboðslega gaman að samfélagið allt sé að taka þátt í því verkefni að efla umgjörðina í kringum íþróttina."


Fljótur að aðlagast umhverfinu úti eftir aðlögunartíma á Skaganum
Eins og segir í innganginum þá er þessi stefna strax farin að bera ávöxt því Jón Breki sem kom í fyrra er þegar farinn út.

„Það er fegurðin við þetta. Það er eitt að segjast ætla gera eitthvað en svo er hitt að ná að fylgja þessu eftir. Það gengur bara vel hjá Jóni Breka. Hann býr vel af þessari reynslu að hafa komið hingað og verið í sex mánuði. Núna þegar hann fór til Ítalíu var hann miklu betur undirbúinn heldur en margir hverjir eftir að hafa verið einn hérna á Akranesi. Hann var fljótur að aðlagast úti, er kominn á fleygiferð með Empoli og gengur vel."

Reyna að vinna vel með félögunum
Segjum sem svo að markmannsstaðan í 3. flokki sé ákveðið spurningarmerki, eru þá þjálfarar ÍA að leita eftir ungum markmanni sem gæti komið á Akranes og inn 2./3. flokk?

„Það er kannski ekki alveg þannig að við séum að útiloka einn eða neinn með þessu. Þegar við erum að horfa í leikmenn annars staðar frá þá eru þetta leikmenn þar sem hæfileikarnir eru þeim mun meiri, slíkir að okkur langar að skoða viðkomandi leikmann. Næsta skref er svo að skoða hvernig staðan er á innra starfinu okkar, verður þörf á þessu á komandi árum. Svo fer boltinn að rúlla."

Hvernig eru viðræðurnar við félögin, eru þetta samningslausir leikmenn eða semjið þið við félögin um prósentur af næstu sölu?

„Það er allur gangur á því. Í sumum tilfellum hafa félögin ekki verið með þessa leikmenn samningsbundna, en í öðrum tilfellum hafa þeir verið það. Þá hefur verið ákveðið samtal um það."

„Nýjasta dæmið um samningsbundinn leikmann er Brynjar Óðinn sem var búinn að vera í dálítinn tíma hjá okkur, keyrði á milli frá Hveragerði og við vorum í góðu samstarfi við Hamar. Á endanum var það ákvörðun drengsins að skipta yfir, hann er fæddur 2009 og byrjar í framhaldsskóla í haust. Tímapunkturinn núna var fullkominn fyrir alla aðila. Við reynum að vinna eftir fremsta magni vel með öðrum félögum, engin spurning."


ÍA vill vera best á Íslandi í þessari leið
„Það skín í gegn hjá okkur hvað við erum að reyna að gera, ekki bara með krakkana sem eru að koma utan frá. Þau eru bara viðbót við okkar öfluga starf sem við erum að reyna byggja upp á Skaganum. Það er ákveðin stefna sem hefur verið að mótast undanfarin ár, erum ekki endilega að fara sömu leiðir og önnur félög. Við erum að reyna fara okkar leið, okkar leið er að gefa ungum leikmönnum sénsinn, fjárfesta mikið í þeim og að það sé greið leið fyrir unga leikmenn úr starfinu okkar upp í meistaraflokkana og þar geti þeir látið ljós sitt skína til að taka næsta skref."

„Við teljum okkar geta verið best í þessu á Íslandi og til lengri tíma litið þá er þetta möguleiki fyrir ÍA til að vera samkeppnishæft við lið eins og Breiðablik og Víking em eru með bestu meistaraflokkana í íslenskum fótbolta í dag,"
segir Ingimar.
Athugasemdir
banner
banner