KA tapaði í úrslitum Kjarnafæðimótsins gegn grönnum sínum í Þór eftir svakalega vítaspyrnukeppni. Fótbolti.net ræddi við Hallgrím Jónasson, þjálfara KA, eftir leikinn.
Lestu um leikinn: KA 5 - 6 Þór
„Mikil barátta, alltof mikið stopp. Eðlilega þegar Þór verða einum færri sitjum við meira á þeim en því miður náðum við ekki að skora. Þór vörðust vel og ég óska þeim til hamingju, unnu þennan leik í ótrúlegum bráðabana í vítaspyrnukeppni," sagði Haddi.
„Við lágum á þeim og sköpuðum aðeins, ekki nóg. Auðvitað eigum við að skora, við fáum færi, boltinn fer í stöngina og hann ver vel í markinu nokkrum sinnum. Við sitjum eðlilega meira á boltanum í seinni hálfleik, margt ágætt en við eigum að skora einum fleiri heilan hálfleik."
KA þurfti að gera þrjár skiptingar í fyrri hálfleik vegna meiðsla. Stubbur meiddist í fyrri hálfleik og William Tönning, sem gekk til liðs við KA í dag, kom inn á í sinn fyrsta leik og meiddist einnig.
„Ég held að það hafi sex meiðst í þessum leik. Þetta eltir okkur, sem er óþolandi. Báðir markmennirnir okkar, ég var ekki parsáttur við Þórsarana þegar þeir tóku báða markmennina okkar úr leik, annar er nefbrotinn," sagði Haddi.
„Það er vont að missa menn í meiðsli. Svona er þetta stundum, við þurfum að gera það besta úr stöðunni, það er ekkert svartnætti, mótið er ekki byrjað. Þetta var góður æfingaleikur, við vitum að við fáum alltaf góða æfingaleiki út úr þessu en neikvætt að menn voru að meiðast."
Athugasemdir