banner
   sun 25. júlí 2021 11:25
Brynjar Ingi Erluson
Wijnaldum fékk nóg: Ég var alltaf blóraböggullinn
Gini Wijnaldum
Gini Wijnaldum
Mynd: Getty Images
Hann var ósáttur með gagnrýnina á samfélagsmiðlum
Hann var ósáttur með gagnrýnina á samfélagsmiðlum
Mynd: Getty Images
Hollenski miðjumaðurinn Gini Wijnaldum segir hegðun stuðningsmanna hafa verið stóra ástæðu fyrir því að hann fór frá Liverpool í sumar og samdi við Paris Saint-Germain. Þetta segir hann í viðtali við Guardian.

Wijnaldum er 30 ára gamall og hefur unnið alla helstu titla með LIverpool en þar má nefna Meistaradeild Evrópu árið 2019 og svo ensku úrvalsdeildina ári síðar.

Hann kom til félagsins frá Newcastle árið 2016 og náði að festa sig í liðinu fljótlega eftir komuna.

Wijnaldum var í miklum metum hjá stuðningsmönnum. Hann gat leyst mörg hlutverk á miðjunni og voru margir hverjir svekktir að hann hafi ekki náð samkomulagi um nýjan samning við félagið.

Hann gekk til liðs við Paris Saint-Germain á frjálsri sölu í sumar en eftir að hafa verið í viðræðum við Barcelona í fleiri vikur, barst tilboð á ögurstundu frá PSG og samþykkti hann það um leið.

Hollendingurinn vildi helst af öllu framlengja við Liverpool en skipti um skoðun vegna ummæla sem voru látin falla um hann eftir leiki Liverpool.

„Það var augnablik þar sem mér fannst fólk ekki meta mig að eigin verðleikum. Það voru ekki liðsfélagarnir eða fólkið á Melwood. Ég vissi að það fólk elskaði mig og þau fengu það sama frá mér. Það var ekki frá þeirri hlið, heldur annarri hlið," sagði Wijnaldum.

„Þetta voru samfélagsmiðlarnir. Þegar það gekk illa þá var mér alltaf kennt um og að ég vildi fara. Ég gaf allt mitt á æfingum og í leikjum. Ég þurfti að enda þetta á réttu nótunum því Liverpool er svo þýðingarmikið fyrir mig og hvernig stuðningsmennirnir á vellinum tóku mér."

„Það var einhver saga um það að Liverpool hafi gert mér tilboð og ég hafi hafnað því þar sem ég vildi meiri pening og stuðningsmennirnir snéru því gegn mér eins og ég væri ekki að reyna að vinna leiki. Þegar við vorum ekki að ná í úrslit og hlutirnir litu ekki vel út þá var eins og allt væri gegn mér. Ég hugsaði oft hvort þeim væri alvara með essu. Það er heildin sem skiptir máli og liðsfélagar mínir gáfu mér aldrei þá tilfinningu eins og ég hefði brugðist þeim eða eitthvað í þá áttina."

„Stuðningsmennirnir á vellinum og þessir sem eru á samfélagsmiðlum eru tvö ólík fyrirbæri. Ég fæ alltaf stuðning á vellinum og jafnvel eftir Covid-pásuna, þar sem þeir vissu að ég væri á förum en þrátt fyrir það var ég hylltur,"
sagði Wijnaldum.

Þetta viðtal hans hefur skapað mikla umræðu í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum en margir stuðningsmenn furðuðu sig á því hvort þetta hafi verið raunveruleg ástæða fyrir því að hann framlengdi ekki.

Samkvæmt áreiðanlegustu blaðamönnum í Liverpool þá fór hann fram á veglega launahækkun. Liverpool var ekki tilbúið að greiða honum um 200 þúsund pund í vikulaun og komust aðilarnir því ekki að samkomulagi.

Margir sérfræðingar eru þá hugsi yfir því að hann hafi ákveðið að hætta við að ganga til liðs við Barcelona á síðustu stundu eftir að Paris Saint-Germain bauð honum töluvert veglegri samning á elleftu stundu.

Hann skrifaði undir þriggja ára samning við Paris Saint-Germain og hafnaði því Ronald Koeman, fyrrum þjálfara hans hjá hollenska landsliðinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner