Jacob Neestrup þjálfari FC Kaupmannahafnar var sáttur með sigur sinna manna gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli þrátt fyrir að lenda í vandræðum og vera yfirspilaðir á köflum.
Lestu um leikinn: Breiðablik 0 - 2 FCK
Það var heppnisstimpill yfir sigri FCK þar sem Blikar fengu fleiri og betri færi en nýttu ekki. Neestrup er þó ekki á sama máli þar sem leikurinn spilaðist öðruvísi fyrir hans augum.
„Við vorum vel undirbúnir fyrir þennan leik. Mér fannst við stjórna fyrri hálfleiknum vel og verðskulduðum að fara inn í leikhlé með tveggja marka forystu. Seinni hálfleikurinn var ekki nógu góður af okkar hálfu en Breiðablik á hrós skilið, þeir sýndu að þeir eru með gott lið," sagði Neestrup. „Við náðum í úrslitin sem við vildum og erum sáttir með frammistöðuna í fyrri hálfleik. Planið í síðari hálfleik var ekki að slaka á og drepa leikinn, það eru vonbrigði."
Neestrup segir að FCK hafi grandskoðað Blikaliðið fyrir viðureignina svo ekkert í spilamennsku liðsins kom Dönunum á óvart. Þá býst hann við talsvert meiri stemningu fyrir seinni leikinn á Parken heldur en var á Kópavogi í kvöld, þó hann hafi hrósað stuðningsmannasveit Blikanna fyrir að missa aldrei dampinn í tapinu.
Neestrup stoppaði stutt við hjá FH á ferli sínum sem leikmaður. Í viðtalinu að leikslokum tók hann eftir gömlum liðsfélaga sínum úr Hafnarfirði, Atla Viðari Björnssyni sem starfaði í kvöld sem sérfræðingur í kringum leikinn á Stöð 2 Sport og vakti athygli á því.
„Þarna er Atli! Ég spilaði með honum."
Neestrup var að lokum spurður aftur út í fyrri hálfleikinn, hvort hann raunverulega hafi talið að FCK væri sterkari aðilinn úti á vellinum.
„Já, það held ég."