Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   þri 25. ágúst 2020 22:59
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Maguire segir sig, fjölskyldu og vini fórnarlömb ef eitthvað er
Harry Maguire.
Harry Maguire.
Mynd: Getty Images
Í leik með Manchester United.
Í leik með Manchester United.
Mynd: Getty Images
Harry Maguire, fyrirliði Manchester United, heldur fram sakleysi sínu. Í yfirlýsingu sem hann gaf út í kvöld segir Maguire að hann, fjölskylda sín og vinir séu fórnarlömbin.

Maguire var í dag dæmdur í 21 mánaða og 10 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir grófa líkamsárás, að berjast gegn handtöku og ítrekaðar tilraunir til að múta lögreglumönnum.

Dómstóll í Grikklandi komst að þessari niðurstöðu. Maguire og tveir aðrir sakborningar í málinu voru dæmdir sekir.

Maguire, sem var ekki viðstaddur réttarhöldin, þarf ekki að sitja inni vegna þess að dómurinn er skilorðsbundinn og þar sem þetta var hans fyrsta brot.

Maguire mun áfrýja dómnum og staðarmiðillinn Manchester Evening News segir að lögfræðiteymi Maguire telji sig vera með góð sönnunargögn.

Hinn 27 ára gamli Maguire neitar að hafa reynt að múta lögregluþjónum og að hafa sagt: „Vitið þið hver ég er?"

Lögmaður Maguire hélt því fram við réttarhöldin í dag að systir Magurie hafi verið byrlað ólyfjan af tveimur albönskum mönnum, hún hafi fallið í yfirlið og í kjölfarið hafi átt sér stað slagsmál. Maguire og lögfræðiteymið, sem Alexis Anagnostaki leiðir, telja að réttarhöldin hafi farið fram alltof snemma og lítill sem enginn tími hafi verið til að undirbúa málið frá þeirra sjónarhorni.

Lögfræðiteymið ætlar að sýna fram á meiðsli sem Harry og Daisy Maguire urðu fyrir þegar áfrýjunin verður tekin fyrir.

Sagt er í grein Manchester Evening News að Maguire og vinir hans hafi reynt að koma Daisy í öruggt skjól en svo hafi óeinkennisklæddir lögreglumenn komið að þeim og reynt að stöðva þau. Lögreglumaður sparkaði í fótlegg Maguire og sagði honum að 'ferill hans væri á enda'. Heimildir miðilsins herma að Maguire sé með meiðsli sem passa við þessa frásögn.

Ashden Morley, vinur Maguire, segir að hópurinn hafi óttast það að verið væri að ræna þeim þegar handtakan átti sér stað. Því var haldið fram við réttarhöldin að Maguire og vinir hans hafi beitt sjálfsvörn gegn óeinkennisklæddu lögreglumönnunum.

Lögfræðiteymi Maguire segist aðeins hafa fengið tvær klukkustundir til að undirbúa sig fyrir réttarhöldin. Þau vildu fresta þeim en fengu ekki ósk sína uppfyllta. Með svona lítinn tíma gátu þau aðeins fengið frásögn frá einu vitni í réttarsalnum.

Mikið ósætti er með dóminn hjá Maguire en ekki er enn víst hvort að áfrýjunin verði tekin fyrir.

Í yfirlýsingu Maguire í dag sagði hann: „Ég er staðfastur og öruggur á sakleysi okkar í þessu máli - ef eitthvað er þá eru ég, fjölskylda mín og vinir fórnarlömbin í þessu máli."
Athugasemdir
banner
banner
banner