Ekitike áþjáður í að fara til Liverpool og hefur farið fram á sölu - Wissa vill frekar fara til Tottenham en Newcastle
   mið 25. september 2019 14:42
Elvar Geir Magnússon
„Vitum hversu mikið er talað og slúðrað"
Gróttumenn búa sig ekki undir annað en að Óskar verði áfram
Óskar Hrafn Þorvaldsson hefur verið orðaður við Breiðablik.
Óskar Hrafn Þorvaldsson hefur verið orðaður við Breiðablik.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
„Það liggur ekkert annað fyrir en að þetta verði óbreytt hjá okkur," segir Birgir Tjörvi Pétursson, formaður Gróttu, þegar hann er spurður út í þjálfaramálin.

Grótta vann það frækna afrek um síðustu helgi að vinna Inkasso-deildina og komast í fyrsta sinn upp í efstu deild.

Þjálfarinn Óskar Hrafn Þorvaldsson hefur komið Gróttu upp um tvær deildir á tveimur árum en sagði eftir sigurinn gegn Haukum síðasta laugardag að framtíðin væri óskrifað blað.

„Óskar gerði þriggja ára samning við okkur sem er eitt ár eftir af. Við erum ekki að búa okkur undir annað en að hann haldi áfram," segir Birgir.

„Fólk er að taka sér frí eftir langt og strangt tímabil. Hugmyndin er sú að fólk hreinsi aðeins hugann."

Óskar hefur verið sterklega orðaður við þjálfarastarfið hjá Breiðabliki eftir að Ágúst Gylfason var rekinn.

„Við verðum að leiða allt svona tal hjá okkur. Maður þekkir það hversu mikið er talað og slúðrað. Það er svo margt sem er ekkert á bak við. Við verðum að einbeita okkur á því sem við höfum stjórn á," segir Birgir sem skilur samt að önnur félög horfi hýru auga til Óskars.

„Örugglega. Er ekki lífið bara þannig? Ef einhver stendur sig vel þá fer einhver að fylgjast með því. En við erum bara á okkar ferðalagi."

Ítarlegt viðtal við Birgi um verkefnin framundan hjá Gróttu birtist síðar í dag.
Athugasemdir
banner