Ísland er ekki á leið á EM, það varð ljóst þegar Úkraína lagði íslenska liðið að velli í Póllandi í kvöld.
Ísland komst yfir í leiknum en Úkraína kom til baka með tveimur mörkum í seinni hálfleik.
Hér að neðan má sjá einkunnir leikmanna íslenska landsliðsins fyrir frammistöðuna í kvöld.
Ísland komst yfir í leiknum en Úkraína kom til baka með tveimur mörkum í seinni hálfleik.
Hér að neðan má sjá einkunnir leikmanna íslenska landsliðsins fyrir frammistöðuna í kvöld.
Lestu um leikinn: Úkraína 2 - 1 Ísland
Einkunnir Íslands:
Hákon Rafn Valdimarsson - 7
Var heilt yfir nokkuð öruggur í leiknum, smá panikk þegar boltinn virtist fara í gegnum hendurnar á honum eftir aukaspyrnu Úkraínumanna en blessunarlega fór boltinn yfir. Gat ekkert gert í mörkunum, skotin alveg út við stöng.
Guðlaugur Victor Pálsson - 5
Byrjaði illa gegn Mudryk alveg í byrjun en svo var Chelsea maðurinn ekki sýnilegur fram að hálfleik. Gulli var heilt yfir fínn í leiknum en tilburðirnir í fyrra markinu voru sérstakir
Sverrir Ingi Ingason - 7
Steig upp á hárréttum tíma í rangstöðumarkinu og skallaði í burtu þær fyrirgjafir sem komu nálægt honum.
Daníel Leó Grétarsson - 6
Góður varnarlega, vel tímasettar innkomur í návígi og mun meira öryggi í honum en gegn Ísrael. Kannski hægt að setja smá spurningamerki með hjálparvörnina í jöfnunarmarkinu.
Guðmundur Þórarinsson - 4 ('63)
Átti nokkrar mjög álitlegar fyrirgjafir sem vantaði mjög lítið upp á að sköpuðu færi. Varnarlega ekki gott, leit mjög illa út í markinu hjá Tsygankov.
Hákon Arnar Haraldsson - 8 ('87) Maður leiksins
Virkilega góður í dag hann Hákon, listamaður með boltann, átti sprett sem hægt er að sýna aftur og aftur. Tók á sig gult spjald þegar það þurfti að brjóta og var duglegur eins og honum einum er lagið.
Jóhann Berg Guðmundsson - 6
Langar að nota enska orðið solid um frammistöðu fyrirliðans. Var alltaf rétt staðsettur og það sást að hann er hokinn af reynslu. Kom ekki mikið úr honum sóknarlega hins vegar og maður saknar þess að sjá hann skapa meira.
Arnór Ingvi Traustason - 7
Hann og Jói voru traustir á miðjunni, skiluðu sínum metrum. Ætlaði sér kannski fullmikið að hjálpa Jóa í marki Mudryk og hann fékk því mikið pláss í D-boganum og kláraði, vantaði að næsti maður fylgdi með út í Mudryk. Fremstu fjórir sáu meira um sóknarleikinn.
Jón Dagur Þorsteinsson - 7 ('87)
Tvö virkilega góð skot sem Lunin þurfti að hafa fyrir því að verja, áræðinn og alltaf mættur í hjálpina þegar þörf var á.
Albert Guðmundsson - 7
Það sáust töfrar í Wroclaw eftir rétt tæplega hálftíma þegar Albert lék sér með boltann rétt fyrir utan vítateig Úkraínu og lét svo vaða með vinstri fæti, óverjandi fyrir Lunin. Var ekki mjög áberandi í leiknum heilt yfir, Úkraínumenn höfðu góðar gætur á honum.
Andri Lucas Guðjohsen - 7 ('63)
Gaf sig allan í þær mínútur sem hann spilaði, náði að valda usla með pressunni sinni og sýndi að hann virkilega langaði að ná boltanum.
Varamenn:
('63) Orri Steinn Óskarsson - 5
Kom ekki mikið út úr honum þær mínútur sem hann spilaði.
('63) Kolbeinn Finnsson - 6
('87) Mikael Anderson - Spilaði ekki nóg til að fá einkunn
('87) Mikael Egill Ellertsson - Spilaði ekki nóg til að fá einkunn
Athugasemdir