Argentína tók á móti Brasilíu í undankeppni HM í nótt og voru heimsmeistararnir talsvert sterkari aðilinn.
Argentína vann 4-1 og gáfu leikmenn liðsins kost á sér í viðtöl að leikslokum, þar sem Leandro Paredes og Julián Alvarez nýttu tækifærið til að svara brasilíska kantmanninum Raphinha.
Raphinha var kokhraustur í viðtali við Romário fyrir stórleikinn en heimsmeistararnir tróðu sokk upp í hann.
„Maður á ekki að segja svona hluti fyrir leik þegar maður getur svo ekki staðið við það sem maður segir. Þegar hann lét þessi ummæli falla ræddum við þau allir saman á WhatsApp hópnum okkar. Í hvert skipti sem eitthvað svona gerist þá þjappast hópurinn saman og gerir allt í sínu valdi til þess að svara fyrir sig á vellinum. Þetta var eins og auka eldsneyti fyrir okkur," sagði Paredes meðal annars eftir lokaflautið.
Julián Alvarez tók undir orð samherja sins og talaði um að Argentínumenn hafi dansað í kringum Brassana.
„Auðvitað bættu þessi ummæli smá kryddi á leikinn. Við héldum okkur hógværum og spiluðum frábæran leik. Við dönsuðum í kringum þá."
Argentína trónir á toppi undanriðils Suður-Ameríkuþjóða fyrir HM, með 31 stig eftir 14 umferðir. Brasilía er í þokkalegri stöðu með 21 stig.
25.03.2025 21:00
Raphinha: Ætlum að slátra Argentínu
Athugasemdir