Kieran McKenna þjálfari Ipswich Town svaraði spurningum fréttamanna eftir 3-0 tap gegn Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Ipswich er fallið stærðfræðilega eftir leiki dagsins ásamt hinum tveimur liðunum sem fóru upp með þeim úr Championship deildinni í fyrra. Liðin féllu með afgerandi hætti þar sem eru enn fjórar umferðir eftir óspilaðar.
„Við höfum vitað það síðustu vikur að þetta yrði líklega niðurstaðan. Við höfum verið að taka einn leik í einu og þetta tap í dag breytir ekki miklu fyrir okkur, við erum búnir að fara í gegnum tilfinningarússíbanann sem fylgir því að falla um deild. Við erum búnir að samþykkja þetta og þurfum mikla naflaskoðun til að bæta okkar leik," sagði McKenna, en Ipswich spilaði stærsta hluta leiksins einum manni færri. Ben Johnson fékk tvö gul spjöld í fyrri hálfleik, það fyrra fyrir dýfu og það seinna fyrir að halda leikmanni Newcastle í stað.
„Við vorum að spila flottan leik og þetta leit vel út fyrir okkur þar til við misstum mann af velli. Við vorum ósáttir með fyrra gula spjaldið og þetta breytti öllum leiknum. Þetta var ómögulegt fyrir okkur gegn svona sterkum andstæðingum sem eru með virkilega frábæran stuðning á heimavelli.
„Ég er ósammála fyrra gula spjaldinu, það var einhver snerting og Ben var á hörkuspretti. Ég held að Ben hafi aldrei dýft sér á ævinni."
McKenna er þó ánægður með gang mála yfir heildina litið, enda var það magnað afrek að fara upp með Ipswich um tvær deildir á tveimur árum.
„Við höfum afrekað magnaða hluti sem munu hjálpa félaginu á næstu árum. Það er margt sem við megum bæta og við eigum enn margt eftir ólært. Þetta er dýrmæt reynsla."
Athugasemdir