lau 26. maí 2018 20:41
Gunnar Logi Gylfason
Real Madrid Evrópumeistari eftir sigur á Liverpool
Benzema fagnar fyrsta marki leiksins
Benzema fagnar fyrsta marki leiksins
Mynd: Getty Images
Karius miður sín
Karius miður sín
Mynd: Getty Images
Bakfallsspyrna Bale
Bakfallsspyrna Bale
Mynd: Getty Images
Real Madrid 3 - 1 Liverpool
1-0 Karim Benzema ('51 )
1-1 Sadio Mane ('55 )
2-1 Gareth Bale ('64 )
3-1 Gareth Bale ('83 )

Ansi fjörlegum úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu var að ljúka nú rétt í þessu í Kænugarði í Úkraínu.

Leikurinn var mikil skemmtun og þá sérstaklega seinni hálfleikurinn.

Salah meiddist
Mörkin létu bíða eftir sér en skærasta stjarna Liverpool, Egyptinn Mohamed Salah, þurfti að fara af velli eftir hálftíma leik vegna meiðsla á öxl. Egyptinn hafði þá lent undir Sergio Ramos, fyrirliða Real Madrid. Salah hélt aðeins áfram en stuttu seinna þurfti hann að fara af velli og grét leikmaðurinn þegar hann fór útaf.

Sjá einnig:
Twitter - Ógeðslegur Sergio Ramos

Aðeins nokkrum minútum síðar þurfti hægri bakvörður Real Madrid, Daniel Carvajal, að fara útaf vegna meiðsla og grét hann, eins og Salah þegar hann gekk af velli.

Staðan var markalaus í hálfleik.

Karius skúrkurinn og Bale hetjan
Eftir sex mínútur í seinni hálfleik varð Loris Karius, markverði Liverpool, á rosaleg mistök sem urðu til þess að Real Madrid komst yfir. Benzema náði þá að komast fyrir sendingu markvarðarins sem ætlaði að kasta knettinum frá marki. Smelltu hér til að sjá markið.

Í stað þess að hengja haus þá spíttu leikmenn Liverpool í lófana og jöfnuðu þeir aðeins fjórum mínútum síðar en Mané skoraði markið eftir hornspyrnu þeirra rauðklæddu. Smelltu hér til að sjá markið.

Áfram hélt fjörið en tæpum tíu mínútum síðar skoraði Gareth Bale algjörlega ruglað mark en hann skoraði það úr bakfallsspyrnu eftir sendingu frá Marcelo. Smelltu hér til að sjá markið.

Eftir þetta vildu Liverpool menn fá vítaspyrnu er boltinn fór í hönd Casemiro inn í teig en þeir fengu ekkert fyrir sinn snúð. Einnig átti Sadio Mané skot í stöng.

Á 83. mínútu gerði Bale hins vegar út um leikinn með langskoti sem fór beint á Karius í markinu sem missti boltann inn í markið og kvöldið algjör martröð fyrir Þjóðverjann. Smelltu hér til að sjá markið. Frábær innkoma hjá Bale, hann reyndist hetjan.

Sjá einnig:
„Hann er ekki að fara að spila fleiri leiki fyrir Liverpool"

Ekki var meira skorað og er þetta því þriðja árið í röð sem Real Madrid vinnur Meistaradeild Evrópu undir stjórn Zinedine Zidane. Leikmenn Liverpool sitja hins vegar eftir með sárt ennið.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner