fös 26. maí 2023 13:55
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Ísak Bergmann: Fyrir mér er mikilvægast að vera góður liðsfélagi
Úr leik í Meistaradeildinni fyrir áramót.
Úr leik í Meistaradeildinni fyrir áramót.
Mynd: EPA
Úr landsleiknum gegn Liecthenstein.
Úr landsleiknum gegn Liecthenstein.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í þeirri stöðu get ég best sýnt þau gæði sem ég bý yfir
Í þeirri stöðu get ég best sýnt þau gæði sem ég bý yfir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak Bergmann Jóhannesson, leikmaður FC Kaupmannahafnar í Danmörku, átti virkilega góðan leik þegar FCK vann AGF síðasta sunnudag. Sigurinn var mikilvægur í toppbaráttunni og er FCK áfram stigi á undan Nordsjælland þegar tveir leikir voru eftir.

Ísak hefur ekki verið í stóru hlutverki að undanförnu, hefur þurft að sýna þolinmæði en nýtti tækifærið sitt heldur betur vel og lagði upp sigurmarkið í 4-3 endurkomusigri. Þrír leikmenn tóku út leikbann hjá FCK í leiknum, þar á meðal tveir miðjumenn og einnig Hákon Arnar Haraldsson sem hefur bæði spilað á miðsvæðinu og í fremstu línu. Í síðustu fjórum leikjum á undan hafði Ísak komið inn á sem varamaður í lok leikjanna.

Margir leikmenn hafa orðið pirraðir á því að spila lítið og láta það hafa áhrif á sig. Ísak var í vikunni í viðtali hjá Tipsbladet í Danmörku og talar um hvað honum finnst það mikilvægasta í fótbolta vera. Það sé að vera góður liðsfélagi.

„Að vera góður liðsfélagi er það mikilvægasta fyrir mér. Það er reyndar það sem ég er stoltastur af á þessum tíma. Ég hef verið góður liðsfélagi, og mér finnst að allir ættu að vera það, jafnvel þegar þeir eru ekki að spila. Ég gæti aldrei verið stoltur af mér ef ég hefði ekki hagað mér almennilega á erfiðum tímum. Það hefur mikla þýðingu fyrir mig að vera góður strákur," sagði Ísak.

Leikurinn á sunnudag var fyrsti leikurinn sem Ísak byrjaði í deildinni á þessu ári.

„Það var ótrúlega gaman að spila í minni uppáhaldsstöðu sem átta. Í þeirri stöðu get ég best sýnt þau gæði sem ég bý yfir. Ég hef talsvert spilað á kantinum, en ég er ekki kantmaður. Styrkleiki minn er að senda boltann fram völlinn, og ég get best gert það á miðjunni. Þetta var sturlaður leikur gegn keppinautum okkar í AGF og tilfinningin eftir leik var frábær."

„Á erfiðum tímum læriru mest. Auðvitað er það þannig að þú værir til í að spila alla leiki, en þetta er eins og það er og ég verð að sýna að ég er andlega sterkur,"
sagði Ísak.

Tveir leikir eru eftir af tímabilinu og er FCK í bílstjórasætinu í baráttunni um titilinn. FCK er ríkjandi meistari í Danmörku og varð liðið danskur bikarmeistari í síðustu viku.

„Ég nýt þess að vera í þessari stöðu. Það er eitthvað eins og þetta sem gerir það að vera fótboltamaður einstakt, eitthvað sem þú gleymir aldrei. Ég held það verði spenna þar til á síðustu sekúndu mótsins, við verðum að halda FC Nordsjælland fyrir aftan okkur og ætlum að vinna annan meistaratitil," sagði Ísak.

Hann er tvítugur landsliðsmaður sem hefur spilað 21 deildarleik á tímabilinu, en hefur einungis byrjað átta þeirra. Hann er samningsbundinn FCK fram á sumarið 2026.

Næsti leikur FCK er gegn Viborg og í lokaumferðinni mætir liðið Randers á Parken.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner