
Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari Þórs/KA var svekktur eftir sögulegt tap gegn Tindastóli í spennandi grannaslag í Bestu deildinni fyrr í kvöld.
Þetta er í fyrsta sinn sem Þór/KA tapar í keppnisleik gegn Tindastóli í kvennaflokki.
„Við komum hingað til að gera góða hluti en gerðum þá alls ekki. Þess vegna er maður mjög sár og svekktur," sagði Jóhann sem tók tapið á kassann.
„Þjálfarinn verður að líta í eigin barm í dag því eins og sást á liðinu í fyrri hálfleik þá var greinilega eitthvað ekki í lagi í undirbúningnum, hvort sem það er eitthvað í kringum pásuna eða eitthvað annað. Þetta var ekki liðið okkar sem spilaði þennan fyrri hálfleik.
„Við gefum þeim þessi mörk því miður og ég er mjög sár með hvernig við komum til leiks, mér fannst það ekki vera líkt okkur. Hugarfarið og allt var betra í seinni hálfleik en það vantaði bara gæði í okkur, við vorum alltof ryðguð. Þetta var ekki nógu gott í dag. Ég þarf að undirbúa liðið betur fyrir næsta leik."
Þór/KA er í fjórða sæti eftir tapið, með 18 stig eftir 11 umferðir.
Athugasemdir