Frederik Schram, markmaður Vals, ræddi við Fótbolta.net eftir leik liðsins gegn Kauno Zalgiris í kvöld. Leikurinn endaði með 1-1 jafntefli. Frederik var maður leiksins, hafði í nægu að snúast og stóð vaktina vel í markinu. Heimamenn í Zalgiris komust yfir nokkuð snemma í seinni hálfleik en undir lok leiks skoraði Tryggvi Hrafn Haraldsson eftir frábæra fyrirgjöf frá Adam Ægi Pálssyni.
Lestu um leikinn: Zalgiris 1 - 1 Valur
„Tilfinningin eftir leikinn er góð. Úrslitin eru góður útgangspunktur fyrir næsta leik, sem við spilum heima þar sem við erum góðir. Það vantaði aðeins upp á gæðin á boltann á köflum, leikurinn ekki alveg eins og við vildum hafa hann, en við erum að verjast vel sem hefur verið einkennandi fyrir okkur, að minnsta kosti síðan ég kom til félagsins, og það er gott að vinna út frá því," segir Frederik.
Eins og kom fram hér að ofan átti Frederik góðan leik, varði átta skot í leiknum.
„Ég er ánægður með minn leik, en ég er enn ánægðari með liðsfélaga mína sem lögðu mjög mikið á sig, sem og leikmennina sem komu inn á í seinni hálfleik og gáfu okkur kraft."
Hvað hefur Frederik um mark Zalgiris að segja?
„Markið kom á tímapunkti í leiknum þar sem mér finnst við vera undir smá pressu og áttum erfitt með að halda boltanum. Ég var nálægt því að verja hann, og sem markvörður þá eru það oft smáatriði sem ráða úrslitum."
Frederik segir Valsara sátta með stigið. „Já, þetta er góður útgangspunktur, jafnt fyrir leik á okkar heimavelli. Ég veit að við eigum meira að gefa og vonandi sjáum við það í seinni leiknum."
Um jöfnunarmark Tryggva hafði Frederik þetta að segja: „Frábært mark. Góð gæði."
Smelltu hér til að sjá markið
En hvað með seinni leikinn, hvað þurfa Valsarar að gera betur?
„Við þurfum að ná betur upp okkar leik, skapa fleiri færi á síðasta þriðjungnum. Ef við gerum það og berjumst eins og við höfum gert svo vel hingað til, þá eigum við góða möguleika á að komast áfram," segir Frederik.
Athugasemdir