Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, lék sem miðvörður í kvöld þegar FH vann 4-2 sigur gegn Breiðabliki í Fótbolta.net mótinu. FH-ingar hafa tryggt sér sæti í úrslitaleiknum.
„Það sást kannski á báðum liðum að það er janúar og ákveðin þyngsl yfir mönnum... þó ég sé alltaf léttur á mér," sagði Davíð léttur eftir leikinn.
„Menn eru greinilega í þungu prógrammi. Ég er samt ánægður með okkur. Við sköpuðum fullt af færum og áttum fyllilega skilið að vinna. Sóknarlega vorum við fínir en það var einbeitingarleysi í þessum mörkum sem við fengum á okkur."
„Það er alltaf gaman að spila úrslitaleiki. Við höfum aldrei unnið Fótbolta.net mótið, við komumst einu sinni í úrslit og gátum ekkert þá. Það er kominn tími á að við klárum dæmið."
Davíð lýst vel á hópinn hjá FH í dag.
„Við sögðum það eftir síðasta tímabil að við ætluðum okkur að skora meira af mörkum og spila aðeins meiri sóknarbolta á tímabilinu 2017. Það að fá Halldór Orra og Veigar Pál eru ákveðin skilaboð auk þess að halda þeim sem fyrir eru."
FH-ingar hafa verið að prófa sig áfram með því að spila þriggja manna vörn á undirbúningstímabilinu.
„Það hefur gengið mjög vel. Við höfum unnið leikina þrjá þar sem við höfum spilað þetta. Það gefur okkur nýja vídd að hafa þennan möguleika og það er gaman að prófa eitthvað nýtt. Það gefur okkur eldri leikmönnumum „búst" að þurfa að hugsa nýja hluti í stað þess að vera alltaf í sama farinu," sagði Davíð en viðtalið má sjá í heild í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir























