Bayer Leverkusen er að ná samkomulagi við Roma um félagaskipti Mario Hermoso til félagsins.
Roma krækti í Hermoso á frjálsri sölu síðasta sumar eftir að samningur hans við Atlético Madrid rann út. Hermoso gerði þriggja ára samning við Roma en er ekki með fast sæti í byrjunarliðinu þar sem Claudio Ranieri er hrifnari af Gianluca Mancini, Mats Hummels og Evan Ndicka.
Xabi Alonso hefur miklar mætur á Hermoso og er hann efstur á óskalista Leverkusen þegar kemur að því að styrkja varnarlínuna.
Hermoso er búinn að gefa munnlegt samþykki fyrir félagaskiptunum og mætti ekki á æfingu hjá Roma í dag. Talið er að Leverkusen muni koma til með að greiða á bilinu 10 til 20 milljónir evra fyrir Hermoso, sem er 29 ára gamall og með fimm A-landsleiki að baki fyrir Spán.
Hjá Leverkusen myndi Hermoso berjast við Edmond Tapsoba og Jonathan Tah um sæti í byrjunarliðinu. Leverkusen vantar miðvörð til að fylla í skarðið fyrir Jeanuël Belocian sem er meiddur út tímabilið.
Athugasemdir