
„Mér fannst miklar framfarir hjá okkar liði. Sérstaklega í fyrri hálfleik. Mér fannst við betri í fyrri hálfleik. Við fáum á okkur mjög klaufaleg mörk. Tvö föst leikatriði og það má bara ekki gerast,“ sagði Guðný Árnadóttir, varnarmaður FH, eftir 1-4 tap gegn Þór/KA á heimavelli.
Lestu um leikinn: FH 1 - 4 Þór/KA
„Þær eru besta liðið á landinu í þessum föstu leikatriðum og við verðum að standa betur í þeim,“ sagði Guðný en fyrstu tvö mörk Þórs/KA komu eftir aukaspyrnu og horn. Mark númer tvö var kjaftshögg fyrir FH-inga sem höfðu verið öflugar eftir að hafa lent undir.
„Mörk breyta leikjum og við vorum kannski ekki alveg nógu góðar í seinni hálfleik. Við náðum ekki alveg takti í seinni eins og í fyrri.“
Þegar fimm umferðir eru búnar af Íslandsmótinu er FH með 3 stig og hefur tapað fjórum leikjum. Þar á meðal gegn liðum sem hafa verið lægra skrifuð fyrir sumarið. Vonbrigðabyrjun hjá Hafnfirðingum og Guðný er eðlilega ósátt við gang mála. Hún segir þó að stutt sé í að FH sæki fleiri stig.
„Fyrstu leikirnir okkar voru bara ekki góðir. Þessi leikur var allt annað. Ég veit ekki hvað veldur en það er mjög erfitt að horfa upp á þetta.“
„Við þurfum bara að líta í eigin barm og halda áfram að bæta okkar leik. Við förum að ná í stig eftir smá,“ sagði Guðný að lokum.
Hægt er að horfa á allt viðtalið í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir