Newcastle á eftir Scalvini - Barcelona snýr sér aftur að Díaz - Tottenham vill belgískan miðvörð
   mið 27. maí 2020 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Rashford fékk viðurkenningu frá sýslumanninum í Manchester
Marcus Rashford, ungstirni Manchester United og enska landsliðsins, hefur verið afar virkur við að hjálpa samfélaginu í kringum sig meðan heimurinn berst við kórónuveiruna.

Rashford ákvað að beina orku sinni og veski í að hjálpa bágt stöddum í Manchester, einna helst fátækum börnum. Til þess fór hann í samstarf með FareShare.

Rashford hrinti af stað frábæru framtaki og fékk einstaklinga og fyrirtæki til að leggja sér lið. Hans framtak varð til þess að 2,8 milljón börn fengu minnst eina fría máltíð á dag undanfarnar vikur.

Upprunalegt markmið Rashford var að safna 100 þúsund pundum og ná þannig að fæða 400 þúsund börn. Með aðstoð stórfyrirtækja og einstaklinga náði Rashford að safna rúmlega 20 milljón pundum.

Þetta framtak Rashford hefur vakið mikla athygli og er sýslumaðurinn í Manchester gríðarlega ánægður með kappann. Rashford hlýtur því sérstaka viðurkenningu fyrir starf sitt í þágu almennings á erfiðum tímum.

„Venjulega deili ég ekki svona hlutum en þessi viðurkenning er ekki bara mín heldur ykkar allra. Þetta er viðurkenning fyrir alla sem lögðu þessari baráttu lið, þó það hafi ekki verið nema með nokkrum pundum. Ykkar framlag skipti sköpum," skrifaði Rashford á Twitter og deildi mynd af viðurkenningarskjalinu.

Rashford ólst ekki upp við bestu aðstæður og vill leggja sitt af mörkum til að hjálpa börnum sem eru yfirleitt í verri stöðu en hann var.



Sjá einnig:
Rashford leggur sitt af mörkum til að hjálpa börnum
Rashford hjálpar börnum að fá fríar máltíðir
Rashford safnaði 19 milljónum á einni viku
Rashford tvöfaldar sitt framlag: Ég þurfti matargjafir
Athugasemdir