FH og Breiðablik skildu jöfn 1-1 í 24. umferð Bestu deildar karla fyrr í dag. Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, er svekktur yfir því að sínir menn hafi ekki hirt stigin þrjú.
Lestu um leikinn: FH 1 - 1 Breiðablik
„Svekkjandi að vinna ekki þennan leik. VIð vorum góðir en Blikar voru meira með boltann sem var viðbúið enda er valinn maður í hverju rúmi þar. Við komumst yfir og fengum góð tækifæri í skyndisóknum en ákvörðunartaka á boltanum var ekki nógu góð. Við áttum möguleika á að koma þessu í 2-0 sem hefði klárað þennan leik, 1-0 er hættuleg staða."
Mathias Rosenorn fékk að líta rauða spjaldið undir lok leiks. FH höfðu klárað sínar skiptingar og fékk því Sigurður Bjartur Hallsson að spreyta sig í markinu, með góðum árangri.
„Við vorum með æfingu í sumar degi eftir leik og Mathias var tæpur þannig Siggi fór í markið og var frábær. Við vildum ekki missa hann úr framlínunni en hann var eini kosturinn í stöðunni og varði frábærlega einu sinni."
FH eru ekki að spila upp á mikið en eflaust er auðvelt að gíra sig upp í heimaleiki enda er liðið enn taplaust þar.
„Við erum að spila upp á stoltið. Við skitum í heyið í fyrra í úrslitakeppninni og viljum ekki gera það aftur. Tveir fínir leikir en vonbrigði að vera ekki með fleiri stig."
Samningur Heimis rennur út í lok tímabils og er orðið á götunni þessa stundina að ráðist verði í þjálfarabreytingar í Krikanum og Sigurvin Ólafsson, þjálfari Þróttar, verði ráðinn inn í stað Heimis.
„Það hefur enginn talað við mig og ég veit ekki neitt. Eins og staðan er í dag þykir mér ólíklegt að ég haldi áfram."
Aðspurður segist Heimir þó hafa áhuga á því að halda áfram með liðið.
„Ég hef áhuga á því að vera áfram. Við spilum í dag gegn Íslandsmeisturum og erum óheppnir að vinna ekki leikinn, höfum fengið 7 stig af 9 mögulegum gegn Breiðabliki. Í síðustu umferð spiluðum við gegn Stjörnunni, sem hefur verið heitasta liðið í deildinni, og áttum möguleika á því að vinna þann leik. Við byrjuðum þessa vegferð í haust og höfum spilað mjög vel í seinni umferðinni en þetta er bara staðan eins og hún er í dag"
Athugasemdir