Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   lau 28. mars 2020 12:30
Ívan Guðjón Baldursson
Sagna svarar Fabregas fullum hálsi: Hljóp ekki nógu mikið
Fabregas og Sagna ásamt Emmanuel Adebayor á betri tímum fyrir Arsenal.
Fabregas og Sagna ásamt Emmanuel Adebayor á betri tímum fyrir Arsenal.
Mynd: Getty Images
Cesc Fabregas útskýrði hvers vegna hann yfirgaf Arsenal á sínum tíma til að ganga aftur í raðir uppeldisfélags sins, Barcelona.

Fabregas var ósáttur með hugarfar liðsfélaga sinna og taldi aðeins tvo samherja sína búa yfir sömu gæðum og hugarfari og hann sjálfur. Það voru Samir Nasri og Robin van Persie, sem yfirgáfu félagið skömmu eftir brottför Fabregas.

Bacary Sagna var hægri bakvörður Arsenal á þessum tíma og tók þessum ummælum fyrrum fyrirliða sins ekki sérlega vel.

„Ég var hissa að sjá þessi ummæli frá honum. Hann átti að vera leiðtogi liðsins og sem leiðtogi þá talarðu ekki svona um þitt fyrrum félag. Ég er hissa því hann er fínn gaur," sagði Sagna í viðtali við Goal.

„Það er frekar harkalegt af honum að segja þetta því ég er ekki viss um að hann hafi alltaf gefið gott fordæmi. Á þessum tíma voru fjölmiðlar að tala um að Fabregas hljóp ekki nógu mikið og kom ekki til baka að hjálpa vörninni. Þetta er eitthvað sem aðrir leikmenn gætu hafa hugsað um hann.

„Ef þú lítur á Liverpool í dag þá er enginn leikmaður sem hleypur ekki. Þetta er alvöru lið. Kannski er þetta ástæðan fyrir því að við unnum ekki deildina á þessum tímum, því ekki allir leikmenn liðsins voru tilbúnir til að leggja þessa aukavinnu á sig að elta leikmenn í hlaupum. "


Sagna er 37 ára og var hjá Arsenal í sjö ár. Hann er ósáttur með vanvirðinguna sem Fabregas sýndi fyrrum liðsfélögunum með ummælum sínum.

„Það er augljóst að í fótboltaliði eru mismunandi leikmenn með mismunandi hæfileika. Sumir eru góðir líkamlega og aðrir tæknilega. Það gefur þér ekki leyfi til að tala með niðrandi hætti til annarra leikmanna. Hann á rétt á sinni skoðun en allir eiga góða tíma og slæma tíma. Ég er ekki viss um að hann hafi alltaf verið frábær á tíma sínum hjá Arsenal.

„Hann er frábær leikmaður sem býr yfir miklum gæðum en það voru einhverjir sem bjuggust við meiru af honum."

Athugasemdir
banner
banner
banner