Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mið 28. apríl 2021 18:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Langstærsti draumurinn að eignast heimili fyrir félagið"
Lengjudeildin
Davíð Smári Lamude hefur stýrt Kórdrengjum frá 2017.
Davíð Smári Lamude hefur stýrt Kórdrengjum frá 2017.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Heiðar Helguson fagnar marki með QPR í enska boltanum.
Heiðar Helguson fagnar marki með QPR í enska boltanum.
Mynd: Getty Images
Úr leik Leiknis og Kórdrengja á undirbúningstímabilinu.
Úr leik Leiknis og Kórdrengja á undirbúningstímabilinu.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Uppgangur Kórdrengja hefur verið mjög hraður.
Uppgangur Kórdrengja hefur verið mjög hraður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Englendingarnir þrír.
Englendingarnir þrír.
Mynd: Kórdrengir
'Það er erfitt fyrir mig að segja hvað verður en draumurinn er að komast einhvers staðar fyrir og eignast heimili fyrir félagið.'
'Það er erfitt fyrir mig að segja hvað verður en draumurinn er að komast einhvers staðar fyrir og eignast heimili fyrir félagið.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kórdrengjum er spáð sjöunda sæti í Lengjudeildinni.
Kórdrengjum er spáð sjöunda sæti í Lengjudeildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
„Ég verð bara að vera hreinskilinn, spáin kemur mér örlítið á óvart," segir Davíð Smári Lamude, þjálfari Kórdrengja.

Kórdrengjum er spáð sjöunda sæti í Lengjudeildinni í sumar af þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar.

Kórdrengir eru komnir upp í Lengjudeildina. Þeir unnu 2. deild í fyrra eftir að hafa komist upp úr 3. deild 2019. Kórdrengir voru fyrst í deildarkeppni 2017 og hefur félagið komist upp í Lengjudeildina á fjórum árum. Uppgangurinn hefur verið mikill á skömmum tíma og það verður spennandi að fylgjast með liðinu í sumar.

„Við erum nýliðar í þessari deild og pínulítið félag. Vissulega er þetta hrós fyrir okkur og það starf sem hefur verið unnið hérna á skömmum tíma. Ég ætla samt ekki að segja að ég verði sáttur ef við endum þarna. Ég held að þetta lið hafi fulla burði til að etja kappi við þessa risa í þessari deild og ég hef fulla trú á því."

Liðsheildin sjaldan ef aldrei verið betri
Kórdrengir hafa misst góða leikmenn í Einari Orra Einarssyni, Magnúsi Þór Matthíassyni, Jordan Damachoua og Unnari Þór Unnarssyni. Þrátt fyrir það hefur undirbúningstímabilið gengið vel.

„Undirbúningstímabilið hefur gengið vel. Það byrjaði frekar erfiðlega. Stórir karakterar í liðinu fóru og það er mikill missir af þeim. Ég kallaði eftir því að aðrir leikmenn myndu stíga upp og það hefur vissulega gerst. Ég er mjög sáttur við það og liðsheildin hefur sjaldan ef aldrei verið betri. Við höfum spilað þetta undirbúningstímabil eingöngu á leikmönnum sem voru í 2. deild í fyrra, án lykilmanna sem voru í liðinu í fyrra. Spilamennskan hefur á köflum verið mjög góð. Við þurfum að ná jafnvægi á hlutina og stöðugleika, þá er maður nokkuð sáttur," segir Davíð Smári.

„Það er hriklega gaman að því að menn hafi trú á okkur, það er hrós."

Kórdrengir höfðu betur gegn Selfossi á útivelli í Mjólkurbikarnum síðasta laugardag.

„Mér fannst við virkilega góðir í fyrri hálfleik og mér fannst þetta sanngjarn sigur. Þeir lágu vel á okkur undir lokin en að öðru leyti er ég mjög sáttur með þann leik. Í þeim leik var enginn nýr leikmaður, það voru allt strákar sem við vorum með í fyrra. Ég tel að það hafi verið mjög sterkt að fara á Selfoss og ná í sigur."

Heiðar Helguson inn í teymið
Davíð hefur stýrt Kórdrengjum upp deildirnar. Davíð lék á sínum með Álftanesi, Fáka og Gnúpverjum ásamt ásamt því að spila tvo leiki með Kórdrengjum. Hann fór af stað með Kórdrengja verkefnið árið 2017. Með honum í ár verður fyrrum landsliðsmaðurinn Heiðar Helguson.

„Hann hefur auðvitað gríðarlega þekkingu og frábært að fá hann inn í þetta," segir Davíð um Heiðar, sem lék lengi vel á Englandi sem atvinnumaður.

„Hann er skemmtilegur karakter og hefur mikið fram að færa. Það er frábært að fá hann inn í þetta. Ég held að það sjái allir að það er gríðarlega jákvætt fyrir okkur að fá stórt nafn eins og Heiðar inn í þetta, og gefur þessu liði og því sem við erum að gera ákveðinn stimpil um að hérna sé verið að gera hlutina með réttu hugarfari, og við séum tilbúin að vaða eld og brennistein til þess. Heiðar Helgu er mögulega töluvert stærra nafn erlendis en hér heima, og það er mjög stórt að fá hann með okkur inn í þetta."

„Ég þurfti ekki að gera mikið til að sannfæra hann, alls ekki. Við búum nánast hlið við hlið og höfum rætt þetta í dágóðan tíma. Við þekkjumst ágætlega. Það þurfti ekki mikið til."

Enskir leikmenn bæst við hópinn
Á dögunum fengu Kórdrengir styrkingu frá Englandi. Um er að ræða miðvörðinn Nathan Dale, miðjumanninn Conner Rennison og framherjann Connor Simpson. Hægt er að lesa um það nánar hérna.

„Þetta eru leikmenn sem ég tel að styrki hópinn töluvert og gefi okkur meiri vídd fram á við. Senterinn sem við fengum, Connor Simpson, er gríðarlega hávaxinn og gríðarlega sterkur í loftinu. Þetta eru strákar sem eru vanir atvinnumannaumhverfi og gera þetta almennilega. Þeir eru líka mjög ungir, sá elsti er fæddur 1999. Það vill oft gleymast í umræðunni um okkar lið að við erum með ungt lið þó við séum með Albert Brynjar, Davíð Ásbjörns og Ondo. Þetta er ungt lið."

Kórdrengir fá þessa leikmenn í gegnum sambönd sem Heiðar Helgu er með í Englandi.

„Það er skemmtileg saga að því að það er umboðsmaður sem hefur samband og er að bjóða okkur eitthvað. Við förum að skoða og svo kemur í ljós að þessi umboðsmaður er starfandi fyrir umboðsmanninn hans Heiðar, það er að segja umboðsmanninn sem Heiðar var með sem leikmaður. Þá fara hlutirnir af stað."

„Conner Rennison var bjartasta von í sínu félagi þegar hann var yngri. (Marcelo) Bielsa hafði mikinn áhuga á honum. Hann slítur svo krossband. Hann er að koma til okkar til að fá leiktíma og koma ferlinum aftur af stað. Hann er kornungur, fæddur 2002."

„Þeir byrjuðu að æfa strax eftir sóttkví allir. Þeir eru frábærir," sagði Davíð Smári en Kórdrengir hafa einnig bætt við sig sænskum miðverði. Þá gekk bakvörðurinn Egill Darri Makan Þorvaldsson í raðir liðsins frá FH.

Spila í Breiðholtinu
Síðasta sumar léku Kórdrengir í Safamýrinni en þeir voru í vetur í leit að nýjum heimavelli. Kórdrengir komust að samkomulagi við Leikni um að fá að spila á gervigrasinu í Breiðholti.

„Mér líst gríðarlega vel á það og hrikalega ánægður með viðhorfið í Leiknismönnum gagnvart okkur," segir Davíð.

„Það þarf kjark til að fá annað félag til að koma og spila á þínum heimavelli. Ég gæti hrósað þeim til morguns. Samstarfið hefur verið mjög gott á milli mín og Sigga (þjálfara Leiknis) og allra þeirra sem koma að þeirra félagi. Ég er hrikalega ánægður með þau. Þetta leggst gríðarlega vel í mig og þá held ég líka. Þetta er skemmtilegt fyrir leikmenn, menn eru að leggja hart að sér. Ég held að þetta hafi ekkert nema jákvæð áhrif á bæði lið."

Ég, Heiðar og leikmennirnir
Markmiðið hjá Kórdrengjum í sumar er að reyna að blanda sér í baráttuna í efri hluta deildarinnar.

„Markmiðið sumarsins er klárlega að reyna að vera í efri hluta töflunnar og eins það að sýna að við erum komnir til að vera. Svo er það auðvitað gamla tuggan; að fara inn í alla leiki til að vinna og maður uppsker eins og maður sáir, og allt þetta. Ég treysti þessum leikmannahópi algjörlega til að standa í þessum risum í þessari deild. Við gerum okkur grein fyrir því að verkefnið er erfitt," segir þjálfari þeirra Kórdrengja.

„Við erum ekki með unga leikmenn sem við erum að reyna að þroska sem leikmenn, hér er valinn leikmaður í hverri stöðu. Ég hef fengið að búa til þetta lið sjálfur og við höfum styrkt okkur á hverju ári. Þessir leikmenn hafa gríðarlega trú á þessu. Við erum bara eitt teymi; ég, Heiðar og leikmennirnir. Það er engin Jóhanna í þvottahúsinu, Gulli dyravörður og þannig. Þetta eru bara við. Það gefur þessu ákveðinn sjarma líka. Það er gríðarleg liðsheild hérna. Það sést á því hvernig við spilum, við erum fastir fyrir og stöndum saman. Það er erfitt að spila gegn okkur."

„Við erum allir saman í þessu og manni líður þannig að öllum líður vel hérna. Innviðirnir eru engir. Allt sem við notum er leigt; við eigum ekki heimavöll og þess háttar. Það er erfitt fyrir mig að segja hvað verður en draumurinn er að komast einhvers staðar fyrir og eignast heimili fyrir félagið. Langstærsti draumurinn er að eignast heimili. Það hjálpar okkur, þessi uppgangur liðsins. Það setur pressu á þá sem þarf að setja pressu á svo það geti gerst. Það er áhugi hérna að byrja með yngri flokka en við höfum ekki aðstöðu til þess. Við getum ekki leigt velli undir yngri flokka þegar við finnum heimavöll korteri fyrir mót."

„Við hvetjum alla til að mæta á völlinn í sumar. Það er mikil eftirvænting fyrir sumrinu," segir Davíð Smári, þjálfari Kórdrengja sem er spáð sjöunda sæti Lengjudeildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner