Olise eftirsóttur - Sádi-Arabía til í að galopna veskið fyrir Van Dijk - Margir orðaðir við Man Utd
   þri 28. maí 2024 16:27
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Enzo Maresca: Einn mesti lærisveinn Guardiola stígur stórt skref
Enzo Maresca.
Enzo Maresca.
Mynd: Getty Images
Maresca stýrði Leicester í eitt tímabil.
Maresca stýrði Leicester í eitt tímabil.
Mynd: Leicester
Maresca á æfingasvæðinu hjá Man City.
Maresca á æfingasvæðinu hjá Man City.
Mynd: Getty Images
Pep Guardiola.
Pep Guardiola.
Mynd: Getty Images
Chelsea hafnaði í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar á nýliðnu tímabili.
Chelsea hafnaði í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar á nýliðnu tímabili.
Mynd: Getty Images
Hvað gerir Maresca á Stamford Bridge.
Hvað gerir Maresca á Stamford Bridge.
Mynd: Getty Images
Chelsea er að ganga frá ráðningu á Enzo Maresca. Hann verður næsti stjóri liðsins og mun skrifa undir fimm ára samning með möguleika á sjötta árinu. Chelsea, sem hafnaði í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar á nýliðnu tímabili, á bara eftir að tilkynna um ráðninguna en það virðist allt vera klappað og klárt.

Maresca er 44 ára gamall Ítali sem átti flottan leikmannaferil. Hann spilaði fyrstu árin sín í meistaraflokksbolta með West Brom á Englandi en lék svo með Juventus, Bologna, Piacenza og Fiorentina heima á Ítalíu. Þaðan lá leiðin til Sevilla á Spáni, Olympiakos í Grikklandi og aftur til Spánar þar sem hann lék með Malaga. Síðustu árin á ferlinum spilaði hann á Ítalíu með Sampdoria, Palermo og Hellas Verona.

Maresca var öflugur og fjölhæfur miðjumaður með marga góða eiginleika. Hann lék fyrir yngri landslið Ítalíu en aldrei fyrir A-landsliðin.

Eftir að skórnir fóru upp á hillu árið 2017, þá byrjaði Maresca fljótlega að þjálfa. Hans fyrsta starf var í þjálfarateymi Ascoli í B-deildinni á Ítalíu, en svo var hann aðstoðarþjálfari hjá Sevilla og West Ham. Sumarið 2020 tók hann við varaliði Manchester City. Þar fékk hann tækifæri til að vinna náið með Pep Guardiola og móta unga leikmenn Man City. Hann vann deildina með varaliði City og var í kjölfarið ráðinn til Parma á Ítalíu. Það var hans fyrsta starf sem aðalþjálfari í meistaraflokki en segja má að hann hafi floppað harkalega þar. Hann vann aðeins 28,5 prósent leikja sinna þrátt fyrir að vera með sterkan hóp fyrir B-deildina á Ítalíu.

Hann var rekinn frá Parma eftir aðeins um hálft ár í starfi og sneri aftur til Man City. Þá fór hann í þjálfarateymi Guardiola og lærði enn frekar af spænska snillingnum. Síðasta sumar gerði hann svo aðra tilraun á að verða aðalþjálfari þegar hann skrifaði undir samning hjá Leicester. Það gekk talsvert betur en hjá Parma, hann var tilbúnari núna. Hann fékk það verkefni að koma Leicester aftur upp í ensku úrvalsdeildina og gerði það með glæsibrag.

Tengingin við Guardiola er sterk
Núna eru stuðningsmenn Leicester miður sín að missa Maresca eftir aðeins eitt tímabil. En tækifærið hjá þykir honum of heillandi til að svara því með neitun.

Sky Sports fjallar um það í dag af hverju Chelsea er tilbúið að taka áhættu á stjóra sem hefur aðeins stýrt minna en 70 leikjum sem aðalþjálfari í meistaraflokki. Chelsea er að horfa í það að komast aftur í Meistaradeildina en félagið vill líka „spila aðlaðandi fótbolta sem gengur út á það að halda í boltann og hafa yfirburði," segir í greininni. Chelsea vill ungan og spennandi stjóra með framtíðarsýn.

Þar kemur Maresca sterkur inn. Tenging hans við Pep Guardiola er sterk og bjó hann til leikstíl hjá Leicester sem minnti á þann stíl sem Guardiola hefur búið til hjá Man City. Lið Leicester hélt gríðarlega vel í boltann og var með yfirburði í sínum leikjum.

„Maresca er svo innbyggður í þennan leikstíl Guardiola að hann var alltaf að fara að vekja áhuga þegar hann gat gert þann stíl farsælan, og það er það sem hann hefur gert hjá Leicester," segir Jordan Blackwell, fréttamaður á staðarmiðlinum Leicester Mercury við Sky Sports.

Maresca tekur gífurlega mikið frá Guardiola varðandi sína hugmyndafræði en hann er líka með sínar áherslur. Hann sýndi það með Leicester að hann óútreiknanlegur að ákveðnu leyti og hann elskar að láta andstæðinga sína giska. Hann er samt sem áður með skýra hugmyndafræði á hvernig fótbolta hann vill spila; aðlaðandi fótbolta sem snýst um að vera með yfirburði inn á vellinum.

Hann er kröfuharður og eigendur Chelsea eru ekki að fá inn já-mann til að taka við liðinu. Ef honum líkar ekki eitthvað þá segir hann það.

Maresca hefur verið gagnrýndur fyrir það hjá Leicester að vera ekki með neitt plan B varðandi leikstíl sinn, en þrjóska hans virkaði hjá Leicester. Á hún eftir að virka í mun stærra umhverfi hjá Chelsea? Það kemur í ljós en þetta er tilraun sem verður mjög svo áhugavert að fylgjast með. Leikmönnum Leicester líkaði mjög vel við Maresca og miðjumaðurinn Harry Winks, sem lék áður með Tottenham, sagði að Ítalinn væri besti þjálfari sem hann hefði nokkurn tímann haft á sínum ferli. Það er stórt hrós í ljósi þess að stjórar eins og Mauricio Pochettino og Jose Mourinho hafa þjálfað Winks. En þjálfarar hafa oft kóðnað niður við að taka svona stórt stökk þar sem persónuleikarnir eru stærri og spurning hvort það gerist með Maresca.

Það er áhugavert í fótboltaheimi nútímans að stjórar sem gera vel í Championship-deildinni, næst efstu deild Englands, eru að landa stærstu störfunum. Vincent Kompany er að taka við Bayern München eftir að hafa gert frábærlega með Burnley í þeirri deild og núna er Maresca að taka við Chelsea eftir að hafa stýrt Leicester til sigurs í deildinni.

Chelsea er þarna að fá einn helsta lærisvein Guardiola í eitt stærsta starf enska fótboltans og núna verður lærisveinninn að sýna sig á stærsta sviðinu í umhverfi sem er eitt það erfiðasta í enska boltanum, á Stamford Bridge. Pressan, hún verður svo sannarlega ekki lítil fyrir þennan óreynda stjóra.
Athugasemdir
banner
banner
banner