Erkifjendur á eftir Branthwaite - Atlético á eftir Greenwood - Tekur Potter við Man Utd?
banner
   sun 28. september 2025 18:03
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Afturelding klifrar úr botnsætinu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Afturelding 3 - 2 KA
0-1 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('37)
1-1 Hrannar Snær Magnússon ('67)
2-1 Elmar Kári Enesson Cogic ('69)
3-1 Hrannar Snær Magnússon ('73)
3-2 Ívar Örn Árnason ('86)

Lestu um leikinn: Afturelding 3 -  2 KA

Það er mikil spenna á lokametrunum í fallbaráttu Bestu deildar karla og tók botnlið Aftureldingar á móti KA í dag.

Gestirnir frá Akureyri tóku forystuna í fyrri hálfleik og leiddu verðskuldað 0-1 í leikhlé. Hallgrímur Mar Steingrímsson var þar á ferðinni með glæsimarki beint úr aukaspyrnu af rétt rúmlega 20 metra færi.

Akureyringar fengu bestu færin í fyrri hálfleik og byrjaði seinni hálfleikurinn afar dapurlega þar til Mosfellingar skiptu um gír. Hrannar Snær Magnússon vann fyrst boltann ofarlega á vellinum og skoraði af harðfylgi skömmu áður en Elmar Kári Cogic tók forystuna fyrir heimamenn með marki beint úr hornspyrnu.

Hrannar tvöfaldaði forystu heimamanna nokkrum mínútum síðar með öðru frábæru einstaklingsframtaki úti á vinstri kanti. Hann fékk boltann, skar inn á hægri fótinn og skoraði gott mark.

KA-menn voru þó ekki á því að gefast upp og minnkaði Ívar Örn Árnason muninn eftir hornspyrnu á 86. mínútu. Akureyringar lögðu allt í sóknarleikinn í uppbótartímanum en uppskáru ekki mark, svo lokatölur urðu 3-2. Gífurlega dýrmætur sigur fyrir Aftureldingu.

Afturelding lyftir sér af botni deildarinnar með þessum sigri. Liðið er núna aðeins tveimur stigum frá öruggu sæti í Bestu deildinni þegar þrjár umferðir eru eftir.

KA siglir áfram lygnan sjó og er núna sjö stigum fyrir ofan fallsvæðið.
Athugasemdir
banner