PSG í baráttuna um Trent - Liverpool hefur áhuga á Dedic - Perez undirbýr stjóraskipti
   mán 28. október 2024 14:13
Elvar Geir Magnússon
Heimild: RÚV 
Viðar Örn: Djammið hluti af metnaðarleysinu
Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viðar Örn Kjartansson, sóknarmaður KA, ræddi við RÚV um liðið tímabil en hann viðurkennir þar að hafa misst metnaðinn fyrir fótboltanum um tíma síðasta vetur.

„Metnaðurinn hvarf í raun. Ég hef eiginlega engin svör við því en svo kemur hann bara aftur. Þetta getur gerst, kulnun eða eitthvað svoleiðis Ég var búinn að vera í níu löndum og endalausir flutningar og svo bjó ég einn í tvö ár. Þetta er ekki fyrir alla," segir Viðar í viðtalinu.

Sögurnar eru búnar til eins og þetta hefði náð langt inn í sumarið
Ýmsar sögusagnir og slúður voru í gangi um Viðar sem viðurkennir að hafa ekki verið með einbeitingu á boltanum. Hann segist vanur því að heyra um sig kjaftasögur sem komi frá fólki sem 'fíli' sig ekki.

„Auðvitað get ég kennt sjálfum mér um að vera sýnilegur hér og þar, í bænum í vetur og annað. Ég tek það alveg á mig. Ég viðurkenni það alveg. Það er alveg ein af ástæðunum fyrir því að ég var ekki í formi. Þarna var ég kominn á einhvern stað, búinn að vera lengi úti og vera einn og þá gerast bara svona hlutir. Skilnaður og alls konar þvæla ofan í það.“

„Það er alveg partur af því að metnaðurinn var ekki. Ég þarf ekki einu sinni að viðurkenna það. Ég var nú bara sýnilegur. Það er mér að kenna. En sögurnar eru búnar til eins og þetta hefði náð langt inn í sumarið, sem er alger þvæla.“

Þú kemur ekkert hingað og gerir þetta með vinstri
Viðar viðurkennir að hafa búist við að standa sig betur með KA í upphafi móts en raunin varð. Hann náði sér á strik seinni hluta móts og hjálpaði liðinu að vinna bikarmeistaratitilinn.

„Ég hefði alltaf trúað því að ég myndi koma hingað og slá í gegn en svo fattar maður að deildin er orðin betri og allir leikmenn eru í hörkuformi. Þú kemur ekkert hingað og gerir þetta með vinstri,“ segir Viðar Örn.

Viðar, sem er 34 ára, segir líklegt að hann geri nýjan samning við KA en viðræður séu í gangi. Þá er Viðar að vinna í því að fá sig lausan úr FIFA banni sem hann var dæmdur í þar sem hann skuldar CSKA 1948 Sofia pening eftir að hafa samið um riftun.
Athugasemdir
banner
banner
banner