Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   mið 28. nóvember 2012 08:30
Ásmundur Haraldsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Getuskipting - Mismunandi þjálfarar
Í tilefni af umræðu um getuskiptingu í knattspyrnu
Ásmundur Haraldsson
Ásmundur Haraldsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mér finnst umræða Vöndu Sigurgeirsdóttur nú nýverið í fjölmiðlum um að „banna getuskiptingu“ einsleit og hallar mjög á okkur knattspyrnuþjálfarana sem að teljum okkur vera að sinna okkar starfi vel og af einhug.

Athygli vekur að enginn knattspyrnuþjálfari hefur verið boðaður í viðtal til þess að fá að svara á málefnalegan hátt. Ekki svo ég viti til. Umræðan er því einhliða að mínu mati.

Einnig set ég stórt spurningamerki við þá fullyrðingu Vöndu í fjölmiðlum um að mismunun sé stunduð af flestum þjálfurum hér á landi. Vanda segir að flestir þjálfarar hér á landi skipti börnum eftir getu og þetta leiði til þess að börnum sé mismunað.

„Það hefur sýnt sig að þeir sem eru í betri liðunum fá meiri kennslu, meiri þjálfun, fleiri tækifæri og meiri athygli. Og þetta hefur heilmikil áhrif," segir Vanda. Ég tel það óábyrgt að varpa slíkri fullyrðingu fram án þess að hafa neitt sér til rökstuðnings.

Vissulega er getuskipt enda senda félög A, B, C, D, E og F lið til þátttöku í mótum. Það er ekkert nýtt. Hins vegar á sú fullyrðing að knattspyrnuþjálfarar mismuni börnum ekki við rök að styðjast. En skiljanlega telur hún þjálfara mismuna þar sem að hennar ályktun er að getuskipting sé af hinu vonda. En ég tel að flestir þjálfarar sinni öllum sínum iðkendum af alhug og af jafnmikilli athygli. Því er ég henni ekki sammála.

En læt hér fylgja með hugleiðingar mínar sem ég setti saman fyrir hóp knattspyrnuþjálfara og birti á fésbókarsíðu hópsins á þriðjudag. Birti hér greinina þjálfurum til málsvarnar.

Við leggjum mikinn metnað í það að sinna okkar iðkendum og við teljum okkur sinna þeim best með því að stýra okkar æfingum á þennan hátt, þeas að getuskipta. Þjálfarar eru jú misjafnir og félög líka og mikill misbrestur á en í flestum tilfellum er þeim vel stýrt og stefnan skýr. Við þurfum og verðum og viljum þjónusta alla okkar iðkendur, sem að eru í sportinu af mismunandi ástæðum.

Sumir vilja verða afreks, aðrir uppá félagsskapinn og enn aðrir bara með sem þátttakendur í skemmtilegu áhugamáli. Við erum því með afreks- og áhugamannstefnu hjá félögunum og við verðum að sinna því vel. Við viljum einfaldlega að allir fái verkefni við hæfi og að öllum líði vel og fái að læra og njóta þessarar skemmtilegu íþróttagreinar á sínum forsendum og sínum hraða. Ég sé ekki tilgang í því að öllum sé blandað saman en þó má gera það endrum og sinnum, sem er gert, en má þó ekki vera reglan, þ.e.a.s. að öllum sé blandað saman.

Ég vil sinna öllum en ef ég set byrjanda með lengra komnum þá sinni ég hvorugum. Því annar þarf að bíða eftir hinum og hinn fær ekki þann tíma sem hann þarf til þess að mastera æfinguna. Ef ég blanda, t.d. í 5. flokki, í 8 liða mót, þá er um helmingurinn virkur. Hinn helmingurinn horfir á, reynir að vinna bolta og reynir að koma honum frá sér til samherja sem er betri, svo hann fái ekki skammir fyrir að missa boltann.

Ef ég raða í 4 getuskipta hópa og 2 jöfn lið í hverjum hóp þá sé ég 8 virk lið með alla iðkendur virka. Þeir sem að eru skemur komnir á veg fá loks tækifæri til að vera með boltann, skora mörk, taka leikmenn á, gera gabbhreyfingar, verja skot og allt í allt eiga þeir fleiri heppnaðar tilraunir inná vellinum, hverjar sem þær eru. Þeir eru ánægðari og eru virkir og fá hlutverk í sínum liðum. Á hinum endanum eru svo þeir sem lengra eru komnir, þeir fá krefjandi verkefni, leikurinn spilast öðruvísi þar sem að þeir þurfa að treysta á meðspilarana og mótherjinn ekki eins auðveldur.

Á þessari sömu æfingu get ég sinnt þeim lakari á öðru leveli en þeim betri og öfugt. Með þá saman næ ég hvorugum hópnum. Varðandi félagslega þáttinn þá æfa hóparnir saman 2x í viku. Þeir fá tækifæri til að kynnast öðrum strákum og utan æfinga eru pizzukvöld og keilukvöld og fleiri skemmtilegir hlutir gerðir saman.

Ef ég myndi blanda saman 5. flokki t.d. á öllum æfingum í hálft ár þá er ég sannfærður um að ég myndi missa helming iðkenda úr hópnum. Af 80 manna hópi myndu þeir 20 bestu fá nóg og fara í önnur félög þar sem að þeir fá ekki nægjanlega krefjandi verkefni. Þeir 20 lökustu myndu líka hætta því að þeir fengju alltof krefjandi verkefni. Hreinlega ráða ekki við þau og sjálfstraustið fer dvínandi. Fáar heppnaðar tilraunir og litlar sem engar sjáanlegar framfarir.

Ég tel því iðkendur þurfa verkefni við hæfi. Við getum hvorki borið okkur saman við Norðurlöndin, meginland Evrópu eða Ameríku en þar er þetta annaðhvort atvinnumennska eða áhugamennska. Afreks- eða áhugamennska. Við sinnum hvoru tveggja. Ég hef þjálfað í USA og veit hvernig fyrirkomulagið virkar þar. Ég hef heimsótt félög í Evrópu og veit hvernig það virkar þar. Við erum einstök og ég tel okkur þurfa að fagna því og segja foreldrum og fólki að við séum að gera það rétta í þessu. Við sinnum öllum og sinnum þeim vel. Ef við ætluðum að gera þetta eins og í útlöndum þá værum við bara með litla 20 manna hópa í öllum aldursflokkum hjá okkur.

Heyrði líka af því að öfund þjálfara í Noregi í okkar garð væri mikil. Þeir VERÐA að blanda öllu saman og mega því ekki þjónusta þá betri eða þá lakari með mismunandi áherslum. Þeir vilja okkar kerfi. En það skiptir litlu máli þar því að þeir bestu verða hvort eð er valdir í stóru klúbbana við 12-14 ára aldur. Hinir halda bara áfram á öðrum vettvangi. Stefnur félaganna breytast úr áhugamennsku í afreks. Við hins vegar höldum öllum hjá okkur til tvítugs.

Nú erum við að leita leiða til þess að halda þeim strákum/stelpum sem að ganga upp í meistaraflokkana lengur í félaginu og finna þeim verkefni við hæfi. Með eitt lið í 2. flokki karla í Stjörnunni fyrir 2 árum og 15 virka iðkendur í það að vera með tvö lið og skýrari getuskiptingu þá eru iðkendur hátt í 40 í dag.

Við eigum við annars konar vandamál að stríða núna og þau eru sú að stóru félögin, með marga iðkendur, þurfa að leita leiða til að sinna þeim eldri betur. Beggja vegna stefnunnar.

Ég hlustaði á Vöndu núna hjá Mána á X-inu á þriðjudaginn og ég get bara ekki verið sammála því sem að var þar rætt. Einum of mikil einföldun á umræðunni. Ég sé ekki að ég geti farið með 80 manna hóp á Skagann, Shell eða á N1 og raðað í 8 jöfn lið. Þá væru þar strákar sem að myndu ekki sjá boltann alla helgina. Þannig er það bara.

Síðustu árin hafa þjálfarar unnið hörðum höndum að því að réttlæta og rökstyðja liðaval með getuskiptingu og ákveðnum fordómum gagnvart henni eytt út. Kerfið býður okkur ekki uppá neitt annað og við þurfum að vinna eftir því. Við erum að reyna að segja foreldrum og iðkendum að bókstafurinn skipti ekki máli. Við erum að reyna að segja við foreldra að úrslitin skipti ekki máli, heldur að krakkarnir fái verkefni við hæfi. Fái að njóta sín á vellinum. Það eru oftast foreldrarnir sem að vilja vinna mótin at any cost.

Þjálfarar vilja að sjálfsögðu vinna mótin jú, en þó alltaf á sínum forsendum. Forsendum þess að krakkarnir séu að læra fótbolta og spila eins og hann á að vera spilaður. Spila við jafningja og fái verkefni við hæfi. Þó er það ekki alltaf raunin en þeim tilfellum fær fækkandi.

Ég hef lent í tilfellum þar sem að einhver telur sig eiga heima í C liði en er í D liði. Mikið grátið. Í upphafi móts býð ég viðkomandi að spila með báðum liðum. Hann skorar í D leiknum og gengur vel. Hins vegar gengur ekki alveg eins vel í C leiknum. Er nánast áhorfandi. Ég spyr þá eftir báða leikina í hvoru liðinu hann vilji spila. Hann velur sjálfur D. Þar gengur honum vel, þar heppnast hans tilraunir. Það er fyrir öllu.

Sé ekki að við séum að gera þeim lakari greiða með því að mæta á mót og fá aldrei boltann því hinir betri spila bara sín á milli. Ég myndi varla setja 2.árs trompetleikara og 5.árs básúnuspilara í sömu lúðrasveitina, blanda þar við 7.árs slagverksleikara og byrjanda á fiðlu. Það yrði ekki góð músík. Af hverju ætti ég að gera börnunum það?

Í gamla daga þá var ég góður í lestri. Ég kunni að lesa áður en ég byrjaði í 6 ára bekk. Við vorum tvö þannig. Hin kunnu ekki að lesa. Allan veturinn þá þurftum við að bíða eftir hinum. Nánast frammí 6. bekk því sumir voru ekki enn komnir með þetta á hreint þá. En við vorum saman í bekk. Sama línan á alla.

Hins vegar má skoða allt. En það að raða í jöfn lið gengur ekki. Ekki hægt að bera það saman við körfubolta þar sem leikmenn VERÐA og ÞURFA á einhverjum tímapunkti að losa sig við boltann, reglur leiksins neyða menn til þess; tvígrip og takmarkaður skrefafjöldi með boltann. Í fótbolta þarf maður þess ekkert. Ef maður getur sólað upp allan völlinn þá bara gerir maður það.

Bottom line. Við þurfum að sinna okkar iðkendum vel með verkefnum við hæfi. Hvort sem að það eru mót, æfingar eða einstaka leikir. Engum er greiði gerður með hinu. Engum. Við byrjum ekkert við 12 ára aldur að undirbúa iðkendur fyrir afreksstarf, landslið, meistaraflokka eða atvinnumennsku.

Erlendis er verið að byrja skera niður hópa fyrir svoleiðis þjálfun. En við getum ekki borið okkur saman við það. Eiga okkar bestu krakkar að æfa með þeim sem að eru í þessu á öðrum forsendum? Láta þá í raun stjórna ferðinni? Til 12 ára aldurs? Þau bestu yrðu ekki lengi að hakka okkur þjálfarana í spað þegar þau uppgötva að þau hafa ekki það sem að þarf til þess að komast í landslið, meistaraflokk etc þegar þau verða 15 ára gömul. Hvað þá? Erum við þá í raun að sinna okkar starfi? Er þá ekki bara nóg að fá einhvern inná æfingar sem að getur raðað jafnt í lið? Þjálfarar leggja mikið á sig til að verða betri og stunda ítarlegt nám hjá KSÍ með kröfum um endurmenntun til að viðhalda þjálfaragráðunum.

Af hverju ætli það sé að það sé fjölgun í öllum fótboltafélögunum? Er ekki núverandi kerfi að virka? Eigum við ekki fleiri iðkendur núna en áður? Eru ekki fleiri ánægðir? Fleiri sem að eiga séns á því að komast langt? Okkar starf er að kenna þeim fótbolta, kenna þeim grunnatriðin svo að þau eigi þá möguleika á því að ná langt KJÓSI þau á annnað borð að ná langt. Hinir sem að kjósa ekki að ná langt fá hins vegar alveg sömu verkefni, sömu þjónustu og hinir. Það eru fleiri og fleiri betri leikmenn að skila sér. Ég tel það vera réttari áherslum í þjálfun að þakka, ásamt betri og upplýstari þjálfurum, frábærri menntun, bættri aðstöðu og áhugasömum og metnaðargjörnum iðkendum.

Það er fátt skemmtilegra en að fara með byrjendur á sumarmótin stóru og gildir einu hvort það sé Skaginn, N1, Símamót eða Shellmót. Það að sjá E og F liðin spila af ánægju, ákefð og á sínum forsendum gegn jafningjum þar sem að menn fá tækifæri til að plata, skjóta, skora mörk og sjá sínar tilraunir heppnast segir mér að þetta kerfi svínvirkar og það sé engin ástæða til þess að fara aðrar leiðir. Það þarf ekki að segja mér hvernig hin leiðin færi með þessa sömu stráka.

Sonur minn er 6 ára. Hann er að læra að lesa. Hann er að læra stafina og er að læra að lesa einstaka orð. Hann er ekki enn kominn með heimaverkefni, þ.e.a.s. bók með heim til að lesa í. Sumir eru komnir með bók heim til að lesa í. Aðrir eru komnir skemur á veg og eru enn að læra stafina. Sonur minn er svona fyrir miðju getulega, kann stafina og er farinn að geta lesið einstök orð. Ef ég færi útí skóla og segði þetta vera mismunun þá myndi mér takast það að halda aftur af þeim sem að lengra eru komnir með því að þeim yrði bannað að lesa heima. Þeir yrðu þá að bíða eftir hinum sem að eru enn að læra stafina. En til þess að mismuna þeim ekki þá þurfa þeir sem að kunna ekki stafina að fara að lesa einstök orð, líkt og minn er að gera. Bara svona til þess að gæta jafnréttis og mismuna engum. Þetta gæti aldrei endað vel enda ekki að ástæðulausu að skólastarfið er eins og það er í dag. Amk lestrarkennslan í 1. bekk í Grandaskóla.

Við erum að kenna þessum krökkum fótbolta. Það er okkar meginstarf. Við höfum dregið úr áherslum þess efnis að sigra öll mót. Foreldrar eru farnir að átta sig á því. Nú er það undantekningin að foreldrar séu alveg snar á hliðarlínunni eða hringi í þjálfara og séu brjálaðir útaf töpum eða bikarlausum mótum eða hvort að barnið þeirra sé C eða D liði.

Þjálfarar í 6.fl/7.fl eru ekki dæmdir af frammistöðu eða bikurum. Heldur af því hvort að krakkarnir séu að læra, verða betri í fótbolta og að þeim líði vel. Þannig er það amk í Stjörnunni. Það er hugarfarsbreyting sem að við þurfum að sjá í yngstu flokkunum. Foreldrar stýra þessu ekki. Heldur félögin. Við höfum stefnu hjá okkur, m.a. til þess að verja þjálfara ágangi foreldra með þessa hluti. Hún er kynnt. Það er það sem við þurfum að leggja áherslu á. Að afnema getuskiptingu leysir engan vanda, heldur býr bara til fleiri vandamál.

Við þurfum á einhverjum tímapunkti að aðskilja afreks- og áhugamannstefnur félaganna. Tvær leiðir í boði. En á einhverjum tímapunkti þarf að velja í afrekshópana. Við komumst ekki hjá því. En er á meðan það er.

Góðar stundir.

Ásmundur Haraldsson
Yfirþjálfari yngri flokka hjá Stjörnunni
Athugasemdir
banner
banner
banner