fös 29. júlí 2022 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Atalanta missir af Tavares en Lookman er á leiðinni
Mynd: Heimasíða Leicester
Mynd: Getty Images

Atalanta þarf að styrkja sig eftir síðasta vonbrigðatímabil þar sem liðið endaði í áttunda sæti og mun ekki taka þátt í Evrópukeppni.


Félagið er búið að krækja í miðvörðinn Merih Demiral og miðjumanninn Ederson og er framherjinn Ademola Lookman næstur inn frá herbúðum RB Leipzig.

Lookman er 24 ára gamall og leikur sem vinstri kantmaður en getur einnig spilað í holunni, fremstu víglínu eða á hægri kanti.

Hann var hjá Charlton og Everton áður en hann fór til Leipzig á láni í janúar 2018 og skoraði 5 mörk í 11 leikjum.

Hann fékk aukin tækifæri hjá Everton við endurkomuna frá Þýskalandi en tókst ekki að láta ljós sitt skína á Englandi. Leipzig endaði því á að kaupa hann til sín sumarið 2019, einu og hálfu ári eftir lánssamninginn.

Leipzig borgaði um 15 milljónir punda fyrir Lookman sem lenti í erfiðleikum við endurkomuna og var lánaður aftur í ensku úrvalsdeildina, þar sem hann skoraði 10 mörk í 60 leikjum hjá Fulham og Leicester.

Hjá Atalanta mun hann berjast við Jeremie Boga um byrjunarliðssæti. Boga var keyptur frá Sassuolo í janúar og hefur ekki staðist væntingar hjá sínu nýja félagi.

Sam Lammers, Aleksei Miranchuk og Josip Ilicic eru einnig að berjast um stöður í sóknarlínunni en ólíklegt er að einhverjum takist að hirða byrjunarliðssætin af Ruslan Malinovskyi eða Mario Pasalic.

Atalanta reyndi að krækja í vinstri bakvörðinn Nuno Tavares á lánssamningi frá Arsenal en hann er á leið til Marseille í Frakklandi. Gian Piero Gasperini er ekki nógu sáttur með framlag Joakim Mæhle sem var keyptur í fyrra en báðir hægri bakverðir liðsins, Hans Hateboer og Davide Zappacosta, geta einnig spilað vinstra megin.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner