Daníel Tristan Guðjohnsen er virkilega spennandi leikmaður en hann er núna á mála hjá Malmö í Svíþjóð.
Daníel Tristan er yngsti sonur Eiðs Smára Guðjohnsen og Ragnhildar Sveinsdóttur, en hann er fæddur árið 2006.
Hann er uppalinn á Spáni og spilaði með unglingaliði Barcelona áður en hann færði sig yfir til Real Madrid fyrir fjórum árum. Hann þykir gríðarlega efnilegur og stóð hann sig vel í akademíunni hjá Madrídarstórveldinu.
Hann hefur núna verið að vekja athygli hjá unglingaliðum Malmö, sem er sigursælasta félagið í Svíþjóð, og fékk að spreyta sig í æfingaferð með aðalliðinu á dögunum.
Milos Milojevic, fyrrum þjálfari Víkings og Breiðabliks, stýrði liði Malmö þegar félagið var að vinna í því að fá Daníel Tristan til félagsins. Hann segir mikið spunnið í hann.
„Það er leikmaður sem við vorum byrjaðir að vinna í að fá þegar ég var hjá félaginu. Við vissum af hans gæðum og við vissum að hann væri góður leikmaður. Ég sé að hann er búinn að fá fyrstu mínútur sínar í meistaraflokki Malmö," sagði Milos í samtali við Fótbolta.net á dögunum.
„Hann er efnilegur og er með gott blóð úr mikilli fótboltafjölskyldu, kannski þeirri bestu á Íslandi. Það er allt til staðar en það er bara spurning hversu ákveðinn og duglegur hann er. Ef hann leggur mikið á sig þá hefur hann alla burði til þess að verða toppleikmaður."
Hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum hér fyrir neðan.
Athugasemdir