Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   fim 30. júní 2022 18:00
Ívan Guðjón Baldursson
Tolisso að snúa aftur til Lyon - Hafnaði stórliðum
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Franski miðjumaðurinn Corentin Tolisso er búinn að velja næsta áfangastað eftir fimm ár hjá FC Bayern.


Tolisso ætlar að snúa aftur til uppeldisfélagsins Lyon sem hann lék fyrir í fjögur ár áður en Bayern keypti hann fyrir metfé í júní 2017.

Bayern borgaði tæplega 50 milljónir evra fyrir Tolisso og var það hæsta kaupverð í sögu félagsins, allt þar til Lucas Hernandez var keyptur fyrir um 80 milljónir evra sumarið 2019. 

Tolisso spilaði 40 leiki á sínu fyrsta tímabili hjá Bayern og skoraði 10 mörk. Um sumarið vann hann HM með franska landsliðinu en sleit krossband á hægra hné á upphafi deildartímabilsins og var frá keppni nánast allt tímabilið.

Frakkinn hefur síðan þá spilað minna bæði fyrir Bayern og franska landsliðið. Í heildina lék hann 118 leiki með Bayern og þá á hann 28 leiki að baki fyrir landsliðið.

Tolisso, sem er 27 ára gamall, skiptir um félag á frjálsri sölu og hafnaði nokkrum stórliðum til að fara aftur til Lyon. Atletico Madrid, Tottenham, Juventus og Inter vildu öll fá Tolisso í sínar raðir.

Miðjumaðurinn öflugi skrifar undir fimm ára samning við Lyon og verður kynntur á næstu dögum.

Auk þess að vinna HM með landsliðinu vann Tolisso allt mögulegt með FC Bayern, til dæmis Meistaradeild Evrópu og HM félagsliða.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner