Sóknarmaðurinn öflugi Sebastien Haller verður frá í nokkra mánuði eftir að hafa farið í aðgerð vegna æxlis sem fannst í eistum hans.
Haller mun vera nokkra mánuði að jafna sig og þarf hann að gangast undir lyfjameðferð líkt og krabbameinssjúklingar gera.
„Sebastien fær bestu læknisaðstoð sem er möguleg og eru batalíkurnar mjög góðar. Við óskum þess að hann og fjölskylda hans finni styrkinn og jákvæðnina sem þarf á þessum erfiðu tímum," sagði Sebastian Kehl, yfirmaður íþróttamála, áður en Dortmund sendi persónuleg skilaboð til fjölmiðla og stuðningsmanna.
„Við viljum biðja fjölmiðla og stuðningsmenn um að sýna því skilning að við munum ekki gefa neinar upplýsingar frá okkur varðandi læknismeðferð Sebastien Haller umfram þær sem nefndar eru í dag," segir á vefsíðu Dortmund.