Það er alltaf létt yfir Luka Kostic. Hann segir að ef Haukar hefðu beðið hann að spila með liðinu þá hefði hann sagt já.
„Fyrir utan úrslitin er ég mjög ánægður með strákana. Þeir lögðu sig 100% fram, við fengum okkar tækifæri og það var margt gott í leiknum," sagði Luka Kostic þjálfari Hauka eftir 2 - 0 tap gegn Leikni í Breiðholtinu í Inkasso-deild karla í kvöld.
Lestu um leikinn: Leiknir R. 2 - 0 Haukar
Sjáðu viðtalið í heild í sjónvarpinu að ofan
Leiknir sótti meira í fyrri hálfleik en dæmið snerist svo við í þeim síðari.
„Við lögðum leikinn þannig upp. Miðað við stöðuna sem liðið er í gátum við ekki komið hingað og sett hápressu á Leiknismenn. Við viljum vinna okkur inn í leikinn og gerðum það. Í seinni hálfleik reyndum við að setja eitt mark og sjá hvað gerðist. Það tókst ekki en leikmennirnir sýndu mikinn vilja og á köflum fóru þeir nákvæmlega eftir því hvernig ég vildi að þeir spiluðu. Leiknismenn eru sterkir og svöruðu okkur mjög vel."
Heppinn að ég var ekki beðinn að spila
Luka tók við liðinu á dögunum til að stýra því út tímabilið í síðustu fjórum leikjunum. Hann segir að aldrei hafi verið spurning um að segja já þegar óskað var eftir hans starfskröftum í þetta verkefni.
„Ég er heppinn að stjórn félagsins bað mig ekki um að spila fyrir Haukana heldur bara taka að mér þjálfun. Ég er Haukamaður og þetta er sjöunda árið mitt hjá félaginu. Mér líður ofboðslega vel hjá Haukum og á marga frábæra vini. Haukar hefðu getað beðið mig um hvað sem er og ég hefði gert það. Þetta var ekki erfið ákvörðun, þeir báðu mig að stíga inn. Ég hef þjálfað marga strákanna í liðinu hérna í sex ár, og nú bætast við fjórir leikir. Ég er mjög tengdur þeim og hlakka til að klára mótið og vonandi náum við okkar markmiði."
Það er ljóst hvert verkefnið er sem Luka tók að sér, markmiðið er að tryggja sæti liðsins í Inkasso-deildinni en þeir eru í þriðja neðsta sæti og Magni og Njarðvík sem eru fyrir neðan þá gætu sett þá á botninn með því að vinna leikinn sem þau eiga til góða.
„Okkar fyrsta skref er að ná í smá sjálfstraust. Við gerðum það í dag því frammistaðan var þannig að við getum farið með margt jákvætt inn í næsta leik. Í næsta leik stígum við aðeins lengra í okkar sóknarspili. Svo sjáum við hvort það dugi en ég vona það."
Stór nöfn á bekknum með Luka
Luka er ekki sá eini sem kom inn á bekkinn hjá Haukum í dag því Salih Heimir Porca og Freyr Sverrisson voru með honum einnig. Andri Fannar Freysson fyrirliði Njarðvíkur er sonur Freys svo þeir gætu endað á að berjast um sæti í deildinni.
„Ég veit ekki hvort hann verði á bekknum í þeim leik," sagði Luka. „Það er einhugur allra þjálfara að fara í þetta verkefni. Einar er þarna líka og Tóti. Við erum að vinna með 3. 2. og meistaraflokkinn og svo Freysi með 4. flokk og niður. Við erum allri einhuga í að hjálpa félaginu. Ég er fenginn til að stýra en við erum allir að setja viljann og orkuna í þetta."
Luka er ráðinn til að stýra liðinu út tímabilið en hvað myndi hann segja ef hann verður beðinn að halda áfram með liðið?
„Nei!" svaraði hann ákveðið. „Ég nýtist félaginu betur með yngri flokkunum. Ég er kennari og er búinn að fatta það þegar ég er kominn á sextugs aldurinn. Ég get gefið félaginu meira með því að kenna en að vera í meistaraflokki."
Héldum að við ættum að vera bláir
Haukar spila vanalega í alrauðum búningum en brugðu út af vananum í kvöld og léku í rauðum peysum, en hvítum buxum og sokkum. Eins og Valsmenn. Var þetta einhver pæling?
„Nei, við héldum að við yrðum að vera bláir. Við mættum því í bláum treyjum, hvítum buxum og sokkum. Svo kom í ljós að við ættum að vera rauðir og þá þurfti að bruna í Hafnarfjörðinn og ná í treyjur."
Stöðutaflan
L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 |
Athugasemdir