Guðrún Jóna Kristjánsdóttir hefur látið af störfum sem þjálfari kvennaliðs Keflavíkur.
Guðrún tók við liðinu á miðju síðasta tímabili eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari en liðið féll úr Bestu-deild kvenna í fyrra.
Keflavík endaði í 8. sæti í Lengjudeild kvenna á nýliðnu tímabili, eftir að hafa verið spáð toppsætinu fyrir tímabil.
Guðrún var samningsbundin Keflavík til ársins 2026 en í tilkynningu félagsins segir að hún og stjórn Keflavíkur hafi komist að samkomulagi um að Guðrún myndi láta af störfum.
Tilkynning Keflavíkur:
Guðrún Jóna lætur af störfum sem aðalþjálfari kvennaliðs Keflavíkur
Guðrún Jóna Kristjánsdóttir og stjórn Knattspyrnudeildar Keflavíkur hafa komist að samkomulagi um að Guðrún Jóna láti af störfum sem aðalþjálfari kvennaliðs félagsins. Guðrún var aðstoðarþjálfari kvennaliðsins frá 2023-2024 og tók við stjórn liðsins undir lok tímabils 2024 eftir erfitt tímabil.
Stjórn Knattspyrnudeildar Keflavíkur þakkar Guðrúnu Jónu fyrir mjög gott samstarf og fórnfúst starf í þágu félagsins og óskar henni góðs gengis í þeim verkefnum sem hún tekur sér fyrir hendur í framtíðinni.
Guðrún Jóna vill koma á framfæri þökkum til leikmanna, stjórnar, kvennaráðs og stuðningsmanna fyrir frábært samstarf. Hún óskar Keflvíkingum góðs gengis í framtíðinni.