Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   þri 30. nóvember 2021 16:50
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Agla María ætlar að skora í dag - Orðið heldur langt tímabil
Icelandair
Agla María nýtur sín á Kýpur.
Agla María nýtur sín á Kýpur.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Ef þjálfarinn vill að ég leysi einhverja stöðu þá geri ég það
Ef þjálfarinn vill að ég leysi einhverja stöðu þá geri ég það
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hún er gríðarlega fljót, getur hoppað hátt og er frábær leikmaður.
Hún er gríðarlega fljót, getur hoppað hátt og er frábær leikmaður.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Hún er líka búin að bæta sig svakalega frá því hún kom fyrst inn í landsliðið.
Hún er líka búin að bæta sig svakalega frá því hún kom fyrst inn í landsliðið.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Agla María Albertsdóttir sat fyrir svörum á fréttamannafundi á laugardag. Þar var hún spurð út í vináttuleikinn gegn Japan sem vannst 2-0, framtíð sína hjá Breiðabliki, Meistaradeildina, Cecilíu Rán Rúnarsdóttur og hlutverk sitt í liðinu.

Agla María er í byrjunarliði Íslands sem mætir Kýpur klukkan 17:00 í dag. Eins og fram kom á laugardag ætlar hún sér að skora í leiknum í dag.

Lestu um leikinn: Japan 0 -  2 Ísland

Kemur allt í ljós fljótlega
Framtíð þín, er stefnan sett á atvinnumennsku?

„Ég er búin að fá þessa spurningu ansi oft... ég mun einhvern tímann gera það; þetta kemur allt í ljós fljótlega," sagði Agla María.

Þegar hún var spurð hvort eitthvað væri í vinnslu, þá svaraði hún: „Það eru alltaf einhver tilboð sem maður fær. Þetta kemur í ljós fljótlega."

Kæmi það henni á óvart að spila í efstu deild á Íslandi næsta sumar?

„Nei, alls ekki. Það er alls ekkert útilokað hjá mér. Ég er að skoða það sem kemur upp og er að vega og meta ýmislegt."

Hún var einnig spurð út í það hvort reynslan með Breiðabliki í Meistaradeildinni hafi ýtt undir viljan til þess að taka skrefið og fara út sagði hún það hafa haft áhrif en ekki kannski á þann hátt sem fólk héldi.

„Það sýnir mér eiginlega enn frekar hvað Breiðablik hefur upp á að bjóða, að vera með Meistaradeildina í boði hérna heima. En það eru auðvitað frábær leikmenn í þessum liðum og það er mjög eftirsóknarvert það sem þeir eru að gera þannig að já, að því leytinu til“.

Best á öðrum hvorum kantinum
Í síðasta leik í Meistaradeildinni lékstu sem fremsti varnarmaður, hvernig fannst þér það?

„Það var svolítið öðruvísi en það sem ég er vön. Ási vildi prófa þetta og mér fannst leikurinn ganga vel þó að við höfum tapað honum. Við vorum að finna mikið pláss og ég var að fá mikið pláss til að hlaupa í. Mín besta staða er samt klárlega á öðrum hvorum kantinum. Ef þjálfarinn vill að ég leysi einhverja stöðu þá geri ég það."

Heldur langt tímabil
Hvernig er skrokkurinn á þér eftir langt tímabil? Finnuru mun á því að þetta sé lengra tímabil en vanalega?

„Ég viðurkenni það alveg að það sé komin smá þreyta í mig núna, undir lokin á tímabilinu. Að sama skapi horfir maður í að það eru bara þrír leikir eftir af tímabilinu og maður er klár í að gefa allt í það. Maður finnur samt alveg að þetta er mun meira álag heldur en það hefur verið áður. Maður hefur svo sem líka verið að spila með landsliðinu, vorum í hörkuprógrami fyrir lokaleikinn með landsliðinu í fyrra sem var í lok nóvember og þar á undan var Breiðablik að spila í Meistaradeildinni. Maður er svo sem alveg vanur að vera spila langt fram á vetur en kannski ekki alveg svona langt, þetta er svona heldur langt."

Ætlar sér að skora
Agla María fékk tvö mjög góð færi gegn Japan á fimmtudagskvöld en hafði ekki heppnina með sér í leiknum. Hún ætlar sér að gera betur gegn Kýpur.

„Já það er engin spurning. Ef ég fæ tækifæri í liðinu á móti Kýpur ætla ég klárlega að reyna að skora. Það er bara svoleiðis."

Geta unnið hvaða lið sem er með góðu skipulagi
Gaf leikurinn gegn Japan ykkur byr undir seglin?

„Já, engin spurning. Þetta japanska lið er frábært og þetta gefur okkur sjálfstraust að ef við fylgjum skipulaginu þá getum við unnið hvaða lið sem er með góðu skipulagi."

Hver var lykillinn að sigrinum?

„Þetta var mjög krefjandi leikur og slatti af hlaupum en ég held að málið hafi verið að við stigum upp á móti þeim eins og Steini lagði upp með fyrir leik, við ætluðum ekki að falla niður því þá lendir maður í eltingarleik. Við gáfum þeim ekki mikinn tíma og því lentum við ekki í jafnmiklum eltingaleik og við höfum gert gegn Japan í síðustu leikjum. Við áttum því næga orku til að sækja líka og mér fannst það lykillinn."

Á eftir að ná langt
Cecilía hefur spilað fimm landsleiki og haldið hreinu í fjórum af þeim. Hvað geturu sagt um hana?

„Það er mjög erfitt að skora hjá henni. Hún er líka búin að bæta sig svakalega frá því hún kom fyrst inn í landsliðið. Hún á eftir að ná mjög langt. Það er engin spurning, hún er virkilega góður markvörður."

„Hún er mjög 'vocal' og hún er nútímamarkvörður að því leytinu til að hún er mjög góð á milli stanganna og einnig mjög góð í fótunum. Hún er tæknilega góð og það er mikill kostur fyrir hana."


Mismunandi eiginleikar
Eruð þið Sveindís með sitthvort hlutverkið í liðinu eða eiga kantmennirnir að gera það sama?

„Ég held að það sé ekki sérstaklega verið að leggja upp með neitt en við erum með mismunandi eiginleika. Hún er gríðarlega fljót, getur hoppað hátt og er frábær leikmaður. Ég held að það sé eðlilegt að það sé skrifað öðruvísi eftir því hvernig styrkleikar hvers og eins leikmanns eru, leikmenn í kringum mann finna út úr því þó það sé ekki sérstaklega lagt þannig upp."

Hvernig er stemningin í hópnum?

„Stemningin er mjög góð eins og venjulega," sagði Agla María.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner