Það var áhugaverð umræða um íslenska landsliðið í útvarpsþættinum Fótbolta.net á laugardag.
A-landsliðið er núna í verkefni þar sem liðið spilar þrjá vináttulandsleiki. Liðið er búið að spila gegn Mexíkó þar sem niðurstaðan var 1-2 tap, en strákarnir áttu flottan leik þar. Tveir aðrir vináttulandsleikir eru framundan. Færeyjar næsta föstudag og svo Pólland 8. júní. Báðir á útivöllum.
Stærstu stjörnur liðsins gáfu ekki kost á sér í þetta verkefni og nokkrir aðrir drógu sig út úr hópnum, núna síðast varnarmaðurinn Ragnar Sigurðsson. Hann yfirgaf hópinn af persónulegum ástæðum.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, þurfti að velja leikmenn úr Pepsi Max-deildinni til að spila gegn Mexíkó en það var ekki stefnan fyrir fram.
„Ég skil þeirra ástæður. Þetta er alls ekki þannig að menn séu að velja sér verkefni. Ef ég sem þjálfari væri sammála öllum og segði bara 'já flott takið ykkur frí og komið bara þegar þið viljið', þá væri ég ekkert sérstakur þjálfari. Ég vil fá mína bestu menn í alla leiki en skil að það er ekki hægt," sagði Arnar við Fótbolta.net.
Sjá einnig:
Arnar Viðars: Þá væri ég ekkert sérstakur þjálfari
Rafn Markús Vilbergsson, fyrrum þjálfari Njarðvíkur, og Valur Gunnarsson, markvarðarþjálfari Leiknis, fóru yfir stöðuna í útvarpsþættinum á laugardag.
„Þetta er eins og við séum komin 10-15 ár aftur í tímann. Maður er hræddur um þetta miðað við allan uppganginn síðustu ár, þetta er skringileg staða sem er komin upp. Þetta er einhvern veginn ekki staðan sem var þegar Heimir eða Lars voru með þetta. Maður hefur áhyggjur af því að þetta sé ekki það sama, að menn vilji koma og spila fyrir landsliðið. Hver sem ástæðan er, það er greinilega ekki eins spennandi að koma og spila fyrir landsliðið í dag eins og fyrir nokkrum árum síðan," sagði Rafn Markús.
„Vonandi nær þetta aftur á þann stall sem þetta var á. Maður opnar ekki internetið án þess að einhver sé búinn að draga sig úr hóp. Ég sá mynd af Andra Fannari vera að tala við Guðna Bergs á æfingu og ég hugsaði: 'Er Guðni í hópnum eða?' Það eru allir að hætta þarna og þetta er ekki nógu gott," sagði Valur.
„Hver er ástæðan fyrir þessu og af hverju er þessi breyting á örfáum árum? Er það ráðningin á nýjum þjálfurum, er það vandamálið? Er eitthvað hjá KSÍ? Hver er ástæðan fyrir þessum breytingum? Það vildu allir spila með landsliðinu fyrir nokkrum mánuðum síðan," sagði Rafn.
Sjá einnig:
Arnar Viðars: Leikmenn sýndu að þeir eigi skilið að vera í þessum hóp
Athugasemdir