banner
   mið 31. ágúst 2022 23:50
Brynjar Ingi Erluson
Conte skýtur á ensku dómarastéttina - „Þurfa að læra hvernig á að nota VAR"
Antonio Conte
Antonio Conte
Mynd: EPA
VAR tók vítaspyrnuna af Tottenham
VAR tók vítaspyrnuna af Tottenham
Mynd: Getty Images
Antonio Conte, stjóri Tottenham Hotspur á Englandi, er alls ekki sáttur við hvernig VAR er notað á Englandi og hafði hann sitt að segja eftir 1-1 jafntefli liðsins við West Ham í kvöld.

Eina mark Tottenham kom á 34. mínútu eftir að Harry Kane reyndi að koma boltanum fyrir markið en hann fór af Thilo Kehrer og í netið. Tomas Soucek jafnaði síðan metin í þeim síðari.

„Mér fannst við eiga kannski skilið aðeins meira en bara jafntefli úr þessum leik, en West Ham átti líka færi á því að skora undir lokin og þá hefðum við tapað. Það er ekki auðvelt að spila við West Ham, sem er líkamlega mjög sterkt lið. Þeir spiluðu löngum boltum og þá þarf maður að vera vel á verði. Við gerðum vel í föstu leikatriðunum og færðum boltann vel á milli og sköpuðum færi til að skora. Við getum gert enn betur því ég vil alltaf segja leikmönnunum smáatriðin í lokin," sagði Conte.

Tottenham vildi fá vítaspyrnu á 12. mínútu leiksins er Harry Kane skallaði í hendina á Aaron Cresswell, leikmanni West Ham. Peter Bankes, dómari, vísaði á punktinn, en fékk síðan skilaboð frá VAR um að skoða atvikið nánar.

Í endursýningu sést að boltinn fer í höfuð Cresswell og síðan í handlegginn á honum. Það var því mat VAR að dæma ekki vítaspyrnu.

„Í hreinskilni sagt þá talaði ég við dómarann í lok fyrri hálfleiksins og sagði við hann að hann þyrfti að taka réttar ákvarðanir. Það er ótrúlegt að VAR horfði aftur á þetta, hafði samband við dómarann, sem sá að þetta var rétt ákvörðun, en þetta var skrítin ákvörðun frá VAR. Ég veit bara að dómarinn tók rétta ákvörðun og vanalega stígur VAR inn í ef ákvörðunin er ekki rétt."

„Hér á Englandi þurfa þeir að læra betur hvernig á að nota VAR á réttan hátt. Það þarf að leggjast betur yfir þetta og vera nákvæmari. Ef VAR er notað þá verður það að vera gert á réttan hátt eða sætta sig við ákvörðun dómarans. Ef þú ert með sjónvarp þá hefur þú tíma til að sjá hvað gerðist. Þetta er ekki bara erfitt fyrir mig heldur alla þjálfara."


Conte er nokkuð sáttur við byrjun tímabilsins. Liðið er taplaust og hefur spilað þrjá útileiki.

„Við byrjuðum tímabilið vel og erum taplausir. Við höfum spilað fimm leiki og þrjá á útivelli. Þetta eru erfiðir staðir að fara á hjá West Ham, Chelsea og Nottingham Forest. Við erum að gera vel og reyna að bæta okkur. Núna eigum við annan leik sem við höfum tvo daga til að undirbúa okkur fyrir og svo þurfum við að hugsa um Meistaradeildina," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner