Real Madrid setur sig í samband við Dalot - Gyökeres til United eða City - Salah til í eins árs samning - Rooney reynir að bjarga starfinu
   fim 31. október 2024 19:41
Brynjar Ingi Erluson
Breiðablik selur Patrik í KÍ/Klaksvík (Staðfest)
Patrik Johannesen er farinn aftur heim til Færeyja
Patrik Johannesen er farinn aftur heim til Færeyja
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Íslandsmeistarar Breiðabliks hafa staðfest söluna á Patrik Johannesen til KÍ/Klaksvík í Færeyjum en þetta kemur fram í tilkynningu knattspyrnudeildar félagsins í dag.

Færeyingurinn gekk í raðir Breiðabliks frá Keflavík í nóvember fyrir tveimur árum.

Hann spilaði 30 leiki og skoraði 7 mörk á tíma sínum hjá Blikum, en erfið meiðsli höfðu áhrif á fyrsta tímabil hans með Kópavogsliðinu.

Patrik sleit krossband í maí á síðasta ári og missti af stærstum hluta tímabilsins, en kom tvíefldur til baka í sumar og tókst að spila 17 leiki og skora 2 mörk er Blikar unnu Bestu deildina.

Framherjinn átti meðal annars eitt af mörkum sumarsins í 3-1 sigri Blika á Fram í sumar með geggjuðu aukaspyrnumarki í anda Andrea Pirlo.

Hann er nú horfinn á braut en Breiðablik hefur selt Patrik til KÍ/Klaksvík í Færeyjum. Kaupverðið kemur ekki fram en samningur Patriks við Blika átti að renna út í lok 2025.

KÍ/Klaksvík vann færeysku deildina á síðasta ári en lenti í öðru sæti á nýafstaðinni leiktíð.

Patrik þekkir vel til hjá KÍ en hann lék með liðinu sumarið 2019 og 2020, en fyrra tímabilið gerði hann 13 mörk er liðið varð færeyskur meistari.
Athugasemdir
banner
banner