Íslandsmeistarar Breiðabliks hafa staðfest söluna á Patrik Johannesen til KÍ/Klaksvík í Færeyjum en þetta kemur fram í tilkynningu knattspyrnudeildar félagsins í dag.
Færeyingurinn gekk í raðir Breiðabliks frá Keflavík í nóvember fyrir tveimur árum.
Hann spilaði 30 leiki og skoraði 7 mörk á tíma sínum hjá Blikum, en erfið meiðsli höfðu áhrif á fyrsta tímabil hans með Kópavogsliðinu.
Patrik sleit krossband í maí á síðasta ári og missti af stærstum hluta tímabilsins, en kom tvíefldur til baka í sumar og tókst að spila 17 leiki og skora 2 mörk er Blikar unnu Bestu deildina.
Framherjinn átti meðal annars eitt af mörkum sumarsins í 3-1 sigri Blika á Fram í sumar með geggjuðu aukaspyrnumarki í anda Andrea Pirlo.
Hann er nú horfinn á braut en Breiðablik hefur selt Patrik til KÍ/Klaksvík í Færeyjum. Kaupverðið kemur ekki fram en samningur Patriks við Blika átti að renna út í lok 2025.
KÍ/Klaksvík vann færeysku deildina á síðasta ári en lenti í öðru sæti á nýafstaðinni leiktíð.
Patrik þekkir vel til hjá KÍ en hann lék með liðinu sumarið 2019 og 2020, en fyrra tímabilið gerði hann 13 mörk er liðið varð færeyskur meistari.
Athugasemdir