Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 20. ágúst 2007 17:01
Magnús Már Einarsson
1.deild: Leikmaður 16.umferðar - Valur Gunnarsson (Leiknir)
Mynd: Leiknir.com - Matthías Ægisson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Sextándu umferðinni í fyrstu deild karla lauk um helgina. Á föstudagskvöldið unnu Leiknismenn góðan 2-1 útisigur á ÍBV í Eyjum. Valur Gunnarsson markvörður Leiknis varði oft á tíðum frábærlega í leiknum og hann er leikmaður 16.umferðar í fyrstu deildinni hér á Fótbolta.net.

Valur Gunnarsson
Markvörðurinn Valur Gunnarsson er uppalinn hjá Leikni og hefur leikið með félaginu alla tíð. Hann ákvað ekki fyrr en í 2.flokki að einbeita sér að markvarðarstöðunni en hann steig sín fyrstu skref með meistaraflokki árið 2001 þegar hann lék tvo leiki í annarri deildinni. Valur sem er 25 ára gamall hefur síðan þá verið aðalmarkvörður Leiknis og hefur hann alls leikið 143 mótsleiki með félaginu.
,,Ég var mjög sáttur við mína frammistöðu, sérstaklega í fyrri hálfleik þegar að þeir lágu á okkur. Þá varði ég nokkrum sinnum ágætlega sem hélt okkur þannig séð inn í leiknum og síðan enduðum við á því að vinna þannig að ég get ekki annað en verið sáttur. Þetta er sterkt Eyjalið og við erum gríðarlega ánægðir með sigurinn" sagði Valur við Fótbolta.net í dag.

Leiknismenn eru í næstneðsta sæti í fyrstu deildinni með fjórtán stig, þremur stigum á undan Reyni Sandgerði. Sigurinn gegn ÍBV var því mikilvægur en á föstudag taka Leiknismenn á móti Reyni.

,,Við vorum komnir svolítið upp við vegg og tap í þessum leik (gegn ÍBV) hefði þýtt að þetta yrði algjör sex stig leikur á föstudaginn, þeir gætu þá komist þremur stigum fyrir ofan okkur. Leikurinn á föstudaginn er ennþá mikilvægur en þetta gefur okkur smá svigrúm þrátt fyrir að það sé ekki mikið."

Keppni í fyrstu deildinni er mjög jöfn en fjögur stig eru í 6-9.sæti með 16 stig. Leiknismenn gætu því skotist upp í sjötta sætið með sigri á föstudaginn

,,Með sigri á föstudaginn getum við aðeins hætt að líta aftur fyrir okkur og horft fram á við og sjötta sætið yrði frábær árangur," sagði Valur.

Jesper Tollefsen tók við þjálfun Leiknis í byrjun mánaðarins og Valur segir hann hafa komið með breytingar inn í Leiknisliðið.

,,Það er það sem maður vonar þegar að skipt er um þjálfara af einhverjum ástæðum að hann komi með einhverjar breytingar og þessi er vissulega að koma með breytingar. Þetta er professional maður með mikla reynslu í þjálfun og hann er að breyta einhverju sem er vonandi til batnaðar."

Valur gerði klaufamistök þegar hann fékk mark á sig gegn Þrótti í 14.umferðinni en síðan þá hefur hann komið sterkur til baka.

,,Maður er kominn með smá reynslu, þetta er fimmta tímabilið mitt í meistaraflokki og maður getur ekki látið svona hafa áhrif á sig. Ég átti ágætis leik gegn Fjölni og síðan góðan leik gegn ÍBV núna."

,,Undanfarið hef ég verið sterkur en ég tel mig hafa gefið full mikið af mörkum. Það eru þrjú mörk sem mér finnst ég hafa gefið," bætti Valur við aðspurður út í frammistöðu sína í sumar.

Leiknir þykir vera fjölskylduklúbbur en stuðningsmenn liðsins hafa sett skemmtilegan svip á heimaleiki þess í sumar.

,,Stuðningsmennirnir hafa verið frábærir í sumar og ég tek ofan fyrir þeim. Það er alltaf bjart yfir Breiðholtinu, við stöndum saman og það er alltaf gaman að spila hérna," sagði Valur Gunnarsson leikmaður 16.umferðar að lokum við Fótbolta.net.

Sjá einnig:
Leikmaður 15.umferðar - Ian Jeffs (ÍBV)
Leikmaður 14.umferðar - Michael Jackson (Þróttur)
Leikmaður 13.umferðar - Atli Heimisson (ÍBV)
Leikmaður 12.umferðar - Gunnar Már Guðmundsson (Fjölnir)
Leikmaður 11.umferðar - Jósef Jósefsson (Grindavík)
Leikmaður 10.umferðar - Dalibor Nedic (Víkingur Ólafsvík)
Leikmaður 9.umferðar - Guðjón Baldvinsson (Stjarnan)
Leikmaður 8.umferðar - Gunnar Valur Gunnarsson (Fjölnir)
Leikmaður 7.umferðar - Guðjón Baldvinsson (Stjarnan)
Leikmaður 6.umferðar - Tómas Leifsson (Fjölnir)
Leikmaður 5.umferðar - Ólafur Páll Snorrason (Fjölnir)
Leikmaður 4.umferðar - Andri B. Þórhallsson (Fjarðabyggð)
Leikmaður 3.umferðar - Hreinn Hringsson (Þór)
Leikmaður 2.umferðar - Scott Ramsay (Grindavík)
Leikmaður 1.umferðar - Árni K. Skaftason (Þór)
Athugasemdir
banner
banner