
Fanndís Friðriksdóttir leikmaður Breiðabliks var sátt með 2-1 sigur liðsins gegn Fylki í Pepsi deild kvenna á Kópavogsvelli í kvöld.
„Ég er mjög sátt. Við erum ánægðar með þrjú stigin hérna á heimavelli, þau hafa ekki verið mörg. Við áttum þetta skilið þó að þær hafi pressað á okkur stíft í lokin, þá vorum við alveg með þetta,“ sagði Fanndís við Fótbolta.net.
Fylkisliðið stjórnaði leiknum meira en nýtti sér það hins vegar ekki og virtust Blikarnir vera hættulegri fram á við þegar þær fengu boltann.
„Við erum náttúrulega með gríðarlega fljóta kantmenn og getum komið á bak við þær. Við ógnuðum þeim oft og hefðum átt að skora fleiri, en þær sóttu stíft á okkur í lokin. Við eigum það til að detta svo mikið niður, föllum alveg svakalega aftarlega og náum ekki að halda okkar leik áfram, þannig að þetta tók smá á taugarnar í lokin.“
Fanndís skoraði glæsilegt mark í byrjun seinni hálfleiks þegar hún tók á nokkra leikmenn og þrumaði knettinum í vinkilinn.
„Við erum búnar að vera duglegar að æfa kláranir í vikunni og það skilaði sér mjög vel. Maður er búinn að vera að reyna þetta en ekki búið að heppnast, þannig að það er bara að halda áfram að skjóta,“ sagði Fanndís.